150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[19:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er nefnilega snúið og hefur verið. Hv. þm. Guðjón Brjánsson flutti ágæta ræðu við fyrri umræðu þessa máls, þar sem hann fór í gegnum söguna og það hafa alltaf verið átök um þennan lið. Mörgu öðru hefur okkur tekist að breyta en alltaf verið átök um þennan lið: Hver á lágmarksstærð sveitarfélaga á að vera, á að setja hana fram með lögþvingun eða ekki? Ég hvet hv. þingmann til að lesa ræðu hv. þingmanns, hún var bara svo skemmtileg og upplýsandi hvað þessa hluti varðar.

Þegar við erum að tala um hitt stjórnsýslustigið, sem er svo mikilvægt, þá finnst mér að við megum ekki bara horfa á eitthvert eitt atriði í málinu. Hv. þingmaður segir að hann styðji tillöguna að öðru leyti. Hann nefndi stjórnarskrána og þá langar mig að spyrja hann varðandi tekjuöflun sveitarfélaga, af því að það er eitt af því sem þingmaðurinn nefndi að lokum í andsvari sínu, þ.e. gagnrýni sem hefur komið fram á það að ekki hafi fylgt fjármagn þeim verkefnum sem hafa verið færð yfir til sveitarfélaga o.s.frv. Að mínu mati þurfum við líka að fara að hugsa svolítið út fyrir boxið. Það hefur gjarnan verið sagt að þjónustan sé betri í nærsamfélaginu og á þeim grundvelli eigi að flytja verkefni til sveitarfélaga. Ég get tekið undir það að mörgu leyti. En ef við lítum svo bara almennt á þetta þá höfum við líka deilt um það mjög lengi hvaða aðra tekjustofna sveitarfélög gætu nýtt sér til að styrkja stöðu sína enn frekar gagnvart hinum ýmsu verkefnum sem þau eru að fást við og ekki bara þau sem ríkið er að færa yfir heldur bara þau sem nútímasamfélag krefst af sínu nærsamfélagi, að það fái tiltekna þjónustu.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hefur hann leitt hugann að því hvaða tekjustofnar það væru sem við gætum fært til sveitarfélaga eða þau gætu búið sér til?