150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[19:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem í aðra ræðu í þessari síðari umr. um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Hér hefur farið fram góð umræða í dag um þessa þingsályktunartillögu sem er tímamótatillaga að því leyti að þetta er í fyrsta skipti sem verið er að leggja fram framtíðarsýn og meginmarkmið í málefnum sveitarfélaga í góðri samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Stefnunni og sýninni fylgir svo aðgerðaáætlun um 11 samstarfsverkefni.

Ég ætla aðeins að drepa á þessi verkefni aftur.

Fyrsta aðgerðin er lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga. Um það verkefni eru, eins og fram hefur komið hér, nokkuð skiptar skoðanir en um hin verkefnin tíu virðist ríkja almenn sátt þótt dregin hafi verið fram ákveðin atriði varðandi nokkur þeirra sem þarf að huga að.

Önnur aðgerðin er fjárhagslegur stuðningur við sameiningar sem miðar að því að auka stuðning við sameiningu sveitarfélaga með stuðningi jöfnunarsjóðs. Þar hefur verið bent á mikilvægi þess að þar komi inn viðbótarfjármagn frá ríkinu, að ekki verði látið sitja við að nýta það fjármagn sem þar er núna. Þess vegna er mjög mikilvægt að framhaldinu þar verði vel fylgt eftir af hálfu Alþingis.

Þriðja aðgerðin er um að styrkja tekjustofna sveitarfélaga.

Fjórða aðgerðin er skoðun á því hvert skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga fyrir sveitarsjóði eigi að vera til framtíðar. Í nefndaráliti meiri hlutans er bent á að það sé gott að íhuga það vel áður en farið verður í breytingar á því skuldaviðmiði sem nú er í lögum.

Fimmta aðgerðin felur í sér að mótuð verði aðgerðaáætlun um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Sjötta aðgerðin miðar að því að skýra stöðu og hlutverk landshlutasamtaka sem lengi hefur verið kallað eftir og mun auðvitað breytast ef sveitarfélögunum fækkar. Þá breytist hlutverkið óhjákvæmilega.

Sjöunda aðgerðin er um betri samskipti ríkis og sveitarfélaga og að tryggja virðingu fyrir sjálfstjórn sveitarfélaga og rétt þeirra til að ráða þeim málefnum sem þau eru ábyrg fyrir.

Áttunda aðgerðin er um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Allmargir hafa komið inn á mikilvægi þess að fylgja eftir betri starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa, m.a. til að gæta að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks og til að tryggja meiri samfellu í hópi sveitarstjórnarmanna.

Níunda aðgerðin miðar að því að bæta aðkomu almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun á sveitarstjórnarstiginu, að fara í vinnu með tilraunaverkefni í nokkrum sveitarfélögum til að prófa ólíkar leiðir í íbúalýðræði.

Tíunda aðgerðin er um betri og aukna stafræna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Ellefta aðgerðin er um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Inn á allar þessar aðgerðir hefur verið komið með einhverjum hætti hér. Varðandi aðgerðina um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga langar mig aðeins að draga saman umræðuna úr því. Þetta er engan veginn í fyrsta skipti sem sett yrði viðmið um lágmarksfjölda í sveitarfélagi. Um tíma á síðustu öld var miðað við 50 íbúa lágmarksfjölda og á þjóðveldisöld var viðmiðið í kringum 400 manns þannig að við erum alls ekki í fyrsta skipti á þessum slóðum.

Nokkrum tíma hefur verið eytt í að ræða túlkun á ákvæðum stjórnarskrár varðandi sjálfstæði sveitarfélaganna. Vissulega hefur aldrei reynt á þá lagatúlkun en þingsályktunartillögunni fylgir ítarleg túlkun fræðimanna í lögfræði á því hvað ákvæðið þýðir og ég er sannfærð um að tillagan er í samræmi við ákvæðið.

Að lokum langar mig að fara aðeins inn í hvað tekur við ef tillagan verður samþykkt með öllum þeim aðgerðum sem hún innifelur. Þá er næsta skrefið auðvitað að samstarf sveitarfélaga og ríkis hefst um verkefnin hvert og eitt. Þá þarf að leggja fram frumvarp í þinginu með bráðabirgðaákvæðum um lágmarksíbúamarkið og þá þarf að skýra hvaða ferli fara af stað ef sveitarfélög hafa ekki tekið sameiningarskrefin í íbúakosningum og eru undir lágmarksíbúatölunni eftir kosningar. Leiðarljósið þar þarf að vera lausnamiðuð samvinna og samstarf milli þeirra sveitarfélaga sem málið varða og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Það er það sem nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar leggur ríka áherslu á, m.a. eins og einhverjir hafa komið inn á hér, að þá verði tekið tillit til landfræðilegra og samfélagslegra aðstæðna við alla vinnu við sameiningar.

Eins þarf að fara í lagabreytingar sem geta lotið að nýjungum í stjórnsýslunni, notkun fjarfundabúnaðar og dreifðri stjórnsýslu. Eins og sveitarstjórnarlögin eru í dag eru ákveðnar skorður settar við nýtingu tækninnar og það er mjög mikilvægt að taka þær hindranir í burtu þannig að það verði nýsköpun sem fylgir sameiningu og endurskoðun á aðferðum í stjórnsýslunni, auk þess að tryggja að hægt sé að dreifa störfum.

Ég þakka öllum þeim sem hafa átt hér orðaskipti í dag um þessa tillögu og ég legg til eins og áður að hún verði samþykkt.