150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

hjúskaparlög.

79. mál
[20:06]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hægt sé að slá því föstu að við raulum allt of sjaldan ástarlög í þessum ræðustól en sjaldan gerum við það þó. Hjúskaparlög eru reyndar að einhverju leyti okkar ástarlög þótt þar sé reyndar ekki mikið rætt um ástir eða tilfinningar hjóna yfir höfuð. Það er kannski miður og mætti gera meira af því í hjúskaparlögunum.

Stundum þrýtur ástina. Þriðja hvert hjónaband endar í skilnaði og um þau hjónabönd er fjallað í því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Samkvæmt hjúskaparlögum er meginreglan sú að ef fólk vill skilja sækir það fyrst um skilnað að borði og sæng og getur síðan sex mánuðum síðar sótt um endanlegan lögskilnað. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei skilið þetta almennilega. Hvort sem við köllum þetta forræðishyggju eða bara afskiptasemi ríkisins er skrýtið að fullorðnum einstaklingum sé ekki treyst til að meta upp á eigin spýtur hvenær þeir vilja hætta að vera í hjónabandi. Í þröngt afmörkuðum tilvikum er hægt að stökkva yfir þennan sex mánaða biðtíma og fá beinan lögskilnað. Þau afmarkast við tilvik þar sem um er að ræða annars vegar hjúskaparbrot og hins vegar ofbeldi innan hjónabands eða heimilis. Til að hægt sé að láta reyna á það ákvæði þarf að vera sönnun fyrir slíku broti, ýmist í formi játningar eða haldbærra sönnunargagna.

Það sem manni dytti fyrst í hug að væru þröngt afmörkuð undantekningartilvik er í seinni tíð mjög langt frá því að vera undantekningin. Í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram á 148. löggjafarþingi kemur fram að á árabilinu 2013–2017 hafi hlutfall skráðra lögskilnaða eftir beinan lögskilnað, sem sagt án þess að vera fyrst skilin að borði og sæng, verið heil 55% þannig að játning eða önnur haldbær sönnunargögn liggja fyrir um einhvers konar brot í meiri hluta tilvika.

Það sem frumvarp þetta gengur út á, frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum (skilnaður án undanfara), er að við bætist ný grein sem orðist svo:

„Nú eru aðilar sammála um að leita lögskilnaðar og ber þá að veita hjónum leyfi til slíks skilnaðar án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng komi fram ósk þess efnis frá þeim báðum …“

Það þýðir að sé fólk sammála um að vilja hætta að vera gift verði fólki bara veitt það leyfi. Svo er bætt við til öryggis að hjónin eigi hvorki sameiginlegar eignir né börn undir 18 ára aldri eða hafi náð samkomulagi um skipan forsjár, um framfærslueyri og aðra skilnaðarskilmála. Þarna kemur til kasta nefndarinnar að meta hvort þetta sé óþarfavarkárni. Kannski nægir einfaldlega að fólk sé sammála um að óska eftir lögskilnaði til að það fái lögskilnað og þar með sé komið sama úrræði fyrir alla en það þyrfti hins vegar að ganga frá eignaskiptum og forsjá, lögheimili og meðlagi alveg eins og fólk gerir í dag þegar það fær leyfi til skilnaðar að borði og sæng.

Með þessu þyrfti fólk ekki að játa brot eða, sem mér þykir jafnvel leiðinlegra og hef fengið að heyra nokkur dæmi frá því að þetta mál kom fyrst fram, að játa á sig brot sem ekki hafa verið framin til að sleppa við þá sex mánuði sem sumir líta einfaldlega á sem afplánun í bið eftir lögskilnaðinum sem mun að endingu óhjákvæmilega eiga sér stað vegna þess að þegar ástina þrýtur er engin ástæða fyrir fólk að halda í hjónabandið þegar það vill skilja. Þetta á ekki bara við um fólk sem vex í sundur hvað ástina áhrærir heldur líka fólk þar sem aðstæður hreinlega bara breytast, þar sem annar aðilinn í sambandinu uppgötvar að kynhneigð viðkomandi passar ekki lengur því sambandi sem sá eða sú er í og þar með vill viðkomandi hljóta skilnað. Það er ansi súrt að þurfa að játa á sig hjúskaparbrot til að ná að stíga út úr sambandi sem viðkomandi upplifir af hjartans djúpri einlægni að viðkomandi geti ekki tilheyrt lengur.

Til gamans getum við skoðað hina hliðina á þessum peningi. Hver er staðan t.d. í dag ef fólk fellir hugi saman og langar að ganga í hjónaband? Þar þarf engan sex mánaða umhugsunarfrest. Á höfuðborgarsvæðinu getur fólk leitar til sýslumannsins sem reiknar sér tvær til þrjár vikur til að kanna hvort hjónaefni uppfylli öll skilyrði og finna hentugan tíma fyrir athöfnina. Þetta telst varla langur tími en er þó lengri en embættið myndi kannski vilja en sökum anna tekur það tvær til þrjár vikur í dag. Ef ástin er þeim mun sterkari hjá fólki og því liggur þeim mun meira á gæti það prófað að banka upp á hjá öðrum sýslumannsembættum. Ég hafði fyrr í dag samband við embættið á Selfossi til að heyra hver staðan væri þar og þar er reiknað með að hægt sé að koma fólki að u.þ.b. viku frá því að öllum pappírum er skilað inn. Í bónus fengi fólk að ganga í hjónaband með niðinn af Ölfusá í bakgrunni þannig að þetta væri skjótara og betra að ýmsu leyti.

Herra forseti. Fólk á að geta slitið hjónabandi með jafn einföldum hætti og það getur stofnað til þess. Flóknara er málið ekki. Verði þetta frumvarp að lögum treystum við fólki einfaldlega jafn vel til að meta þessar tvær jafngildu ákvarðanir.