150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ójöfn staða kynjanna í stjórnunarstöðum var til umræðu á opnum fundi viðskiptadeildar Háskóla Íslands í gær og ég sat þar í pallborði með öðru góðu fólki. Fundurinn hófst með því að Ásta Dís Óladóttir lektor kynnti niðurstöður rannsóknar sem ber heitið Er skortur á framboði eða er engin eftirspurn eftir konum í æðstu stjórnunarstöður? Í kjölfarið velti salurinn ásamt fundarstjóra upp spurningum á borð við: Hvað þarf að gera til að jafna stöðuna? Eru engin smitáhrif af lögum um kynjakvóta í stjórnum? Er raunhæft að setja kynjakvóta á framkvæmdastjórnir? Ég myndi vilja hafa slíkt persónulega sem algjört neyðarúrræði en ég hefði líka átt von á því að staðan væri allt önnur og betri en hún er núna á því herrans ári 2020. Það getur vel verið að það sé málið að setja aftur kynjakvóta og það er sannarlega auðveldara að mínu mati að sætta sig við það þegar gögnin renna stoðum undir það að skortur er á eftirspurn en ekki skortur á framboði af hæfum konum. Mögulega þarf svona átak til að breyta þessum huglæga mælikvarða okkar um hvaða eiginleikar séu æskilegir í stjórnunarstöður. En svo er líka hægt að stíga minni skref með minni inngripum og vonast eftir eða þrýsta á um að slíkar breytingar hjálpi til við þessar menningarbreytingar hjá okkur.

Í síðustu viku mælti hv. þm. Þorsteinn Víglundsson fyrir máli sem er ætlað að skapa fyrirtækjum jákvæðan hvata til að taka þessi mál föstum tökum. Þar er lagt til að tryggingagjald fyrirtækja sem m.a. uppfylla skilyrði um jöfn kynjahlutföll í æðstu stöðum verði lækkað um hálft prósent. Og á næstunni mun ég vonandi tala fyrir, í þriðja skipti þó, máli þar sem kveðið er á um aukið gagnsæi í fjárfestingum lífeyrissjóða, stærstu og áhrifamestu fjárfesta í íslensku samfélagi, þannig að þeim verði gert, ef þeir fjárfesta í fyrirtækjum þar sem um er að ræða verulegan kynjahalla, að rökstyðja þær ákvarðanir.

Burt séð frá þessum tveimur málum er það ljóst að ábyrgð okkar hér í þessum sal er mikil. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, kjarnaði málið vel (Forseti hringir.) í inngangsorðum sínum á fundinum í gær þegar hann greindi jafnréttismál sem eitt af mikilvægustu úrlausnarefnum samtímans. Jafnrétti og fjölbreytileiki skipta nefnilega máli (Forseti hringir.) í velsæld þjóða. Við þurfum að finna lausnir, ekki síst ef við ætlum áfram að vera helsta forystuþjóðin í jafnréttismálum.