150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Er hnattræn hlýnun samsæri eða er hamfarahlýnun handan við hornið? Sama hvort háværa fólkið beggja megin hefur rétt fyrir sér eða ekki þá er það staðreynd númer eitt að sjórinn við landið hefur hlýnað, hann er hlýrri en hann var. Þess vegna er makríllinn kominn. Það er staðreynd númer tvö að þegar sjórinn við landið er hlýrri verða stormarnir við landið sterkari og tíðari. Þetta sáum við nú á þessum 50 ára stormi, seltustormi að norðan, sem sló út raforkulínur víða um land, sérstaklega á Norðurlandi. Þessir sterkari og tíðari stormar eiga það til, vegna hlýrri sjávar, að verða sterkari og tíðari og toga heimskautaloftið niður yfir landið. Svo er þriðja staðreyndin kannski sú að sumir vilja ekki sjá að sjórinn við landið er heitari, ef maður horfir á umræðuna, og vilja ekki sjá að það þýði tíðari og sterkari storma sem stundum blása köldu lofti yfir landið. Þeir nota það sem rök fyrir því að heimurinn sé ekkert að hlýna. En staðreyndin er sú að sjórinn við landið er að hlýna og þeir sem vilja ekki sjá þessar staðreyndir, þeim er ekki treystandi fyrir raforkuöryggi í landinu. Þeim er ekki treystandi fyrir almannavörnum sem vilja ekki taka þetta með í reikninginn og þeim er ekki treystandi fyrir stjórn landsins.