150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Af fullri virðingu við öll önnur mál finnst mér eitt mál standa algjörlega upp úr í dag og það er hin svokallaða kórónaveira. Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra funduðu í morgun og var tekin ákvörðun um að vinna eftir landsáætlun fyrir heimsfaraldur inflúensu. Áætlunin styðst við lög um almannavarnir og sóttvarnalög og gert er ráð fyrir að atvinnulíf í landinu verði skert í ákveðinn tíma, hluti þjóðarinnar verði rúmfastur vegna veikinda og dánartíðni verði umfram það sem búast má við í venjulegu árferði. Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir því að veiran muni koma, eins og kom fram í Kastljóssþætti í fyrrakvöld, þar sem hann var ásamt okkar ágæta landlækni í viðtali við Jóhönnu Vigdísi. Það breytir ekki þeirri staðreynd, eins og hann segir, að það er ekki spurningin hvort veiran kemur til landsins heldur hvenær.

Það mun þurfa að koma til okkar kasta hér á hinu háa Alþingi. Stjórnmálamenn eiga eftir að þurfa að taka ákvarðanir. Ég veit ekki hversu erfiðar eða þungar þær verða. Ég vil ekki vera með hræðsluáróður en staðreyndin er sú að það er verið að bregðast við í löndunum allt í kringum okkur út um allan heim. Ástralar hafa kallað saman hóp af sínum þegnum frá þessum sýktu svæðum þar sem uppruni veirunnar er í Kína og sent þá heim og í einangrun þar í einhvern ákveðinn tíma.

Ég vil nota þetta tækifæri sérstaklega og hrósa Kínverjum fyrir það ótrúlega góða viðbragð sem þeir hafa sýnt og hvernig þeir hafa gengið fram í því. Nú eru þeir t.d. búnir að loka fyrir allan ferðamannastraum frá sínu landi í hópferðum. Og bara að lokum, fyrst ég (Forseti hringir.) sé að tími minn er búinn, vil ég nefna að kínverski sendiherrann á Íslandi hefur gengið fram með góðu fordæmi og hann hefur aflýst áður boðaðri galaveislu í boði Kínverja á Íslandi. En ég segi:(Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem við þurfum sannarlega að taka föstum tökum.