150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Gjörningaveður sem gengið hafa yfir norðanvert landið hafa varla farið fram hjá neinum undanfarnar vikur. Íbúar hafa upplifað óöryggi, byggðarlög hafa lokast af í lengri og skemmri tíma og þá skiptir máli að öflugt öryggisnet sé til staðar. Það er margt sem kemur þar til. Margvíslegri þjónustu hefur verið hagrætt á svæðinu, svo sem mikilvægri bráðaþjónustu. Því er öruggt aðgengi að sjúkraflugi vegna skyndilegra alvarlegra veikinda eða slysa lífsnauðsyn, ekki síst ef um hópslys er að ræða. Búnaði á flugvöllum til sjúkraflugs hefur verið illa við haldið og vantar talsvert upp á víða.

Ég vil sérstaklega ræða stöðuna á Blönduósflugvelli einmitt í ljósi þess að það hérað hefur á undanförnum vikum lokast af í jafnvel fleiri daga, bæði norður og suður fyrir, og þurft að treysta á sjúkraflug. Það hafa orðið alvarleg slys og varð hópslys fyrir skemmstu, rútuslys. En það er mjög alvarleg staða að ekki sé búið betur að búnaði á Blönduósflugvelli. Það vantar að halda búnaði við, meira að segja að stilla aðflugsljós sem kostar ekki stórar upphæðir. Það vantar GPS-kerfi. Það fara 700.000 bílar þarna um á ári. Síðan þegar málið er tekið upp vísar hver á annan. Það er ekki ljóst hver ber ábyrgð á viðhaldsleysi Blönduósflugvallar. Isavia segir ákvörðun um viðhaldsmál, þjónustustig og uppbyggingu flugvallarins vera hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. En aðstoðarmaður samgönguráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að ráðuneytið skipti sér ekki af því hvernig Isavia ráðstafi fjármunum, Isavia sjái um flugvellina. Þetta er alveg ótækt. Eitt er að þarna þurfi að gera betur en það þarf líka að skýra það hver ber ábyrgðina. Á einhver að axla þá ábyrgð og gera það sem þarf að gera? Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessari stöðu á Blönduósi.