150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Hinar ýmsu hamfarir sem hafa riðið yfir þjóðina, veðurfarslegar, efnahagslegar, atvinnulegar, birtast okkur með ýmsum hætti en fyrst og síðast, eftir að hafa heimsótt Vestfirði og Suðurnesin líka, ber hæst hjá fólki ákall um ákvarðanir. Það er ekki ákall um hópa, starfshópa eða nefndir þótt þær geti vissulega verið gagnlegar, ekki síst við að taka ákvarðanir þegar öll gögn liggja fyrir. Á fjölmennum íbúafundi á Flateyri eftir snjóflóðin fyrir vestan nú í janúarmánuði sagði einn íbúi mjög skýrt: Fólkið er bara biðja um tækifæri til lífs og atvinnu. Tækifæri til lífs og atvinnu — ég held að það sé eitthvað sem stjórnmálin skulda fólkinu, hvort sem það er fyrir vestan, norðan, austan eða sunnan, að taka ákvarðanir sem geta leitt til framfara, leitt til þess að eyða óvissu; svara málefnum varðandi lýðskólann, eyða óvissu þegar kemur að byggingu snjóflóðavarnargarða. Það eru til áætlanir, það er til skipulag, allir vita af því hjá ofanflóðasjóði en þá er bara enn einn hópurinn skipaður. Eða eins og einn nefndarmaður sagði: Það hefði bara verið einfaldast að senda tölvupóst og svarið hefði komið strax um hvað þarf að gera.

Mitt ákall til ríkisstjórnarinnar er að koma sér að verki. Það er tæpt ár síðan að ríkisstjórnin öll þrammaði suður með sjó þegar WOW fór á hausinn. Hvað hefur gerst síðan? Ekkert annað en að atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur aukist úr 4% á sama tíma fyrir ári í ríflega 9%. En ríkisstjórnin kemur sér ekki að verki. Ég bið hana einlæglega um að koma sér að því að taka ákvarðanir. Það er ýmislegt sem liggur fyrir. Það er ýmislegt sem hægt er að gera til að eyða óvissu fólksins, veita því tækifæri til lífs og atvinnu.