150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er víðfeðm og innan hennar er rekið umfangsmikið styrkjakerfi sem hefur margvísleg markmið. Bændur fá styrki af ýmsu tagi sem er ætlað að gera þeim mögulegt að reka starfsemi á búum sínum. Til að tryggja fullt gagnsæi við ráðstöfun þeirra miklu fjármuna sem varið er til þessara verkefna er skylt að birta upplýsingar um alla styrkþega, tegundir styrkja og upphæð þeirra. Af þessum sökum get ég flett upp í gagnagrunnum og séð t.d. að Arnar Þór Arnarson, bóndi í Vejle Kommune, fékk 8.528 danskar kr. í almennan styrk og 3.892 í umhverfisstyrk árið 2018. Þetta eru um 225.000 ísl. kr. Á sama hátt get ég séð að Ken Mogens Olsen, bóndi í Vordingborg, fékk á sama tíma um 9 millj. ísl. kr. í sömu styrki.

Þetta geri ég að umtalsefni vegna þess að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur í svari við fyrirspurn minni um greiðslur til sauðfjárbúa árin 2014–2018 neitað að veita upplýsingar um greiðslur til einstakra búa og vísað í þingsköp Alþingis þar sem fjallað er um persónulegar og viðkvæmar upplýsingar. Þetta svar er auðvitað óviðunandi með öllu. Það er ekki í anda gagnsæis um ráðstöfun opinbers fjár. Við höfum þegar stigið skref með opnun reikninga hjá ríkinu, við upplýsum um styrki til fyrirtækja úr opinberum sjóðum, styrki til listamanna o.s.frv. Hér þarf hæstv. ráðherra að taka af skarið og mæla fyrir um birtingu upplýsinga um styrki til bænda. Ef hæstv. ráðherra gerir það ekki verður þingið að taka til sinna ráða.