150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[15:37]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að taka jákvætt í þessa mikilvægu umræðu um jafnrétti til náms óháð búsetu. Þær staðreyndir að við búum í stóru og dreifbýlu landi og sú aukna fjölbreytni náms sem er í samræmi við þróun okkar góða samfélags gera það að verkum að stór hópur ungs fólks þarf að fara um langan veg, fjarri heimili sínu, til að stunda framhaldsmenntun af einhverju tagi, hvort sem það er til stúdentsprófs, iðnnám, háskólanám eða annað sérnám. Eðli málsins samkvæmt er mesta námsframboðið á höfuðborgarsvæðinu, t.d. sjálfur Háskóli Íslands og þar af leiðandi tveir stærstu háskólarnir og svo stærstu iðnnámsskólarnir. Það sem mætir nemendum á landsbyggðinni sem ekki hafa menntastofnun í heimabyggð, menntastofnun sem gerir þeim kleift að stunda það nám sem þeir hyggjast nema eða hafa áhuga á, er að hér á höfuðborgarsvæðinu er erfiður og dýr húsnæðismarkaður. Við höfum byggt ýmis kerfi til að takast á við þetta. Má þar nefna öflugt húsnæðiskerfi fyrir námsmenn, námslánakerfi, rétt nemenda til húsaleigubóta. Staðan er samt sem áður orðin sú að þessi kerfi eða úrræði eða hvað sem við köllum það duga ekki lengur. Það stafar af því að biðlistar eru orðnir langir inn á stúdentagarða eða önnur búsetuúrræði stúdenta, leiguhúsnæði er takmarkað og leiguverð mjög hátt. Þetta sjáum við skýrt í þeim gögnum sem koma frá Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem færri taka námslán og fleiri búa í foreldrahúsum.

Þetta gerir ungu fólki sem vill stunda nám erfitt fyrir. Hafi það ekki möguleika á því að dveljast í húsnæði hjá foreldrum eða ættingjum eða njóta stuðnings foreldra sinna í húsnæðiskostnaði horfir það fram á mjög kostnaðarsamt nám umfram almennan námskostnað. Það getur leitt til þess að ungt fólk hafi ekki tök á því að sækja það nám sem það hefur áhuga á eða þarf að öðrum kosti að stunda fulla vinnu samhliða námi sem hefur óneitanlega mikil áhrif á námsárangur og gæti jafnvel orðið til þess að viðkomandi hætti í námi. Þar af leiðandi geta framúrskarandi nemendur sem koma úr grunnskóla eða framhaldsskóla lent í því að geta ekki fylgt námshæfileikum sínum og námsáhuga sínum eftir út af húsnæðismálum. Þá eru nemendur að lenda í því, t.d. á Suðurlandi, að geta ekki sótt framhaldsskóla í heimasveit sinni þar sem engin heimavist er til staðar.

Fjölbrautaskóli Suðurlands er með öflugt iðnnám en þangað geta nemendur á miðju Suðurlandi og Suðausturlandi ekki sótt nám vegna skorts á búsetumöguleikum og búsetuúrræðum meðan á námi stendur. Því vildi ég hefja þessa umræðu við hæstv. menntamálaráðherra um hvað við getum gert í þeirri stöðu nemenda á landsbyggðinni, velta því upp hvort við þurfum ekki að fjölga heimavistum, sérstaklega við iðnnámsskóla þar sem við leggjum áherslu á að auka iðnnám. Best væri að fjölga stúdentaíbúðum, sem ég held að vísu að verið sé að vinna að á fullu, en gætum við þurft að skoða það að taka upp forgang fyrir nemendur af landsbyggðinni sem hafa síður möguleikar á að búa í foreldrahúsum? Væri hægt að rýmka skilyrðin fyrir að fá húsaleigusamning, t.d. með því að gera ungu fólki kleift að leigja herbergi af eldra fólki sem er ekki lengur með börn á heimilinu, hefur því pláss en hefur kannski ekki það sem þarf til að uppfylla húsaleigusamning eins og séraðgengi að eldunaraðstöðu og salerni og slíku? Eru til leiðir til að taka enn frekar mið af þessari stöðu í námslánakerfinu sem við erum að fjalla um í þinginu þessa dagana, t.d. með húsnæðis- og dvalarstyrkjum?

Ég held að við þurfum að leita allra leiða til að tryggja að ungt fólk, sama hvar það býr á landinu, hafi tök á því að mennta sig og fylgja námsáhuga sínum og námsárangri eftir án þess að þurfa að fórna miklu eða stunda vinnu samhliða náminu. Þannig getum við tryggt að við fáum öflugt fólk út á vinnumarkaðinn til að starfa í heimabyggð.