150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[15:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hið eina sanna markmið menntunar er að gera manninn hæfan til að halda endalaust áfram að spyrja spurninga. Áleitnar spurningar geta breytt miklu og vil ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að hreyfa við þessu mikilvæga máli. Ég held að það sé alveg ljóst að við öll sem erum hér inni ásamt þeim sem hlýða á okkur erum sammála um að við viljum að á Íslandi sé framúrskarandi menntakerfi. Það þarf að vera framúrskarandi fyrir alla óháð búsetu. Það er einkum þrennt sem einkennir þær þjóðir sem hafa framúrskarandi menntakerfi. Það er í fyrsta lagi að öll umgjörð og allt sem tengist kennurum og skólastjórnendum sé framúrskarandi. Við erum að vinna að því með því að efla starfsþróun og huga að nýliðun og það hefur gengið mjög vel. Í öðru lagi er það það hugarfar að allir geti lært, að allir skipti máli og geti fundið sig í skólakerfinu og það þarf raunverulega að vera hugarfarið svo að við náum árangri. Í þriðja lagi tengist það stjórnmálum og forgangsröðun, þ.e. að forgangsraða í þágu menntunar og jafnra tækifæra. Þetta eru þær þrjár meginstoðir sem verða í nýrri menntastefnu og við miðum allt út frá því.

Lítum nú á stöðuna er varðar viðfangsefni dagsins, aðgengi að menntun og hvernig við hlúum að því. Gott aðgengi að menntun er klárlega grunnstoð í íslenskri menntapólitík. Við viljum að börn og ungmenni fái jöfn tækifæri í lífinu til mennta og þroska. Við höfum náð góðum árangri og í alþjóðlegum samanburði er Ísland meðal efstu þjóða er varðar jöfnuð í menntakerfinu og aðgengi að menntun. Aðgengi að menntun á öllum skólastigum er almennt gott. Grunnskólakerfið er skilvirkt og sveitarfélög sinna vel skyldum sínum á því sviði. Það má nefna að á framhaldsskólastiginu býðst nemendum aðgengi að 38 skólastofnunum sem reka starfsstöðvar eða dreifnámsdeildir víða um land. Þétt net símenntunarstöðva og heimavistunarúrræði við átta framhaldsskóla gera aðgengi að almennu framhaldsskólanámi nokkuð gott á landsvísu. Bættar almenningssamgöngur, hröð tækniþróun og samstarf 12 framhaldsskóla á landsbyggðinni undir hatti Fjarmenntaskólans hafa jafnframt stuðlað að bættu aðgengi og betri menntun í framhaldsskólanámi á landsbyggðinni.

Það er hins vegar mikilvægt að við séum alltaf að huga að þessu og kanna hvað við getum gert betur eins og kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar. Við horfum til svæða þar sem vegalengdir eru hvað mestar og heimavistir standa nemendum ekki til boða. Stjórnvöld eru að koma til móts við þennan hóp og veita sérstaka námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegri aðstöðu nemenda. Veittur er dvalarstyrkur sem samanstendur af ferðastyrk, fæðisstyrk og húsnæðisstyrk að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á síðasta ári nam dvalarstyrkurinn 156.000 kr. á önn. Akstursstyrkur er síðan ætlaður nemendum sem sækja skóla frá lögheimili og keyra daglega í skólann. Fullur akstursstyrkur árið 2019 var 90.000 kr. á önn.

Það er sýn mín að við hlúum verulega að því að þessi stuðningur þróist í takt við verðlagsþróun og að færa megi hann nær raunkostnaði nemenda og fjölskyldna þeirra. Í fjárlögum þessa árs er 590 millj. kr. ráðstafað í námsstyrki af þessu tagi. Búast má við um 4.500 styrkumsóknum en frestur til að sækja um jöfnunarstyrk fyrir vorönn 2020 rennur út um miðjan febrúar.

Virðulegur forseti. Með örri tækniþróun og breyttum aðferðum við nám hefur vægi margs konar fjarnáms farið hratt vaxandi. Sú þróun hefur auðveldað nemendum að stunda nám óháð búsetu en í öllum tilvikum er gert ráð fyrir staðbundnum námslotum sem valda nemendum einhverjum kostnaði. Í því samhengi er það sérstakt fagnaðarefni að fræðsluaðilar í landshlutum, hjá símenntunarmiðstöðvum og þekkingarsetrum, hafa veitt fjarnámsnemendum þjónustu í sérstökum námsverum, t.d. við prófatöku, eða bjóða upp á námsaðstöðu.

Virðulegi forseti. Við erum að setja á laggirnar starfshóp sem á að vinna að því að kortleggja betur þörfina fyrir heimavist nemenda sem koma af landsbyggðinni hér á höfuðborgarsvæðinu en ég legg líka ríka áherslu á það að við viljum efla tækni- og verk- og háskólanám á landsbyggðinni þannig að um land allt sé gott aðgengi að námi fyrir alla námsmenn.