150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[15:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka framsögumanni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, og hæstv. menntamálaráðherra fyrir að vekja máls á og ræða möguleika þeirra sem búa úti á landi til náms, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Það er oft geysimikil breyting í lífi fjölskyldna úti á landi þegar unglingurinn, kannski 15, 16 ára, þarf að yfirgefa foreldrahús til að sækja nám í framhaldsskóla fjarri foreldrahúsum. Jafnvel þótt oft sé það reyndar dásamað í hástert, ekki síst þegar menn rifja upp æsku sína á efri árum, hversu ungir þeir fóru að standa á eigin fótum fjarri æskustöðvum og án nokkurs stuðnings að heiman, þá eru tímarnir aðrir og breyttir. Eða er ekki svo?

Herra forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem snýr að því að veita öllum íbúum þessa lands eins jafnt aðgengi að því að sækja sér menntun og unnt er. Um það erum við öll sammála. Málið snýst bara um leiðirnar til að ná því markmiði. Hæstv. ráðherra ræddi nýja möguleika, margfalda möguleika, landsbyggðarfólks til að sækja nám og er það víða í framkvæmd. Það er þó ekki allt vegna þess að margt nám þarf nálægð við kennara og við getum ekki leyst öll málin með fjarnámi. Hæstv. ráðherra ræddi líka hvað ríkið er að gera í þeim málum, eins og t.d. dvalarstyrki og akstursstyrki, og er það vel. En það eru mörg og stór landsvæði hér sem ekki eru í akstursfjarlægð frá framhaldsskólum og þar þurfa ungmenni að dvelja við nám fjarri heimilum sínum með öllum þeim kostnaði sem því fylgir og erfiðleikum því samfara. Sú staðreynd að heimavistum hefur fækkað er víða stórkostlegt vandamál, t.d. á Suðurlandi eins og framsögumaður kom inn á.