150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[15:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil einnig gera fjarnám og fjarkennslu að umræðuefni í þessari góðu umræðu sem ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að koma af stað. Það vill svo til að nýlega fór sá sem hér stendur að skoða möguleika til fjarnáms og kom á óvart hve mikið er boði og kom á óvart hversu mikið það er notað. Sömuleiðis verður að benda á að fjarnám felst ekki einungis í því að fólk einhvers staðar úti á landi geti stundað fjarnám í skólum á stærri svæðum, í Reykjavík og á Akureyri, heldur einnig öfugt. Það getur líka styrkt skóla úti á landi að bjóða upp á fjarnám fyrir fólk annars staðar. Sem dæmi getur einstaklingur sem býr í Reykjavík og hefur aldrei stigið fæti á Siglufjörð farið í nám á menntaskólastigi á Siglufirði þannig að þetta gengur í báðar áttir. Það að styrkja fjarnám sérstaklega felur, held ég, aðallega í sér að greitt sé fyrir tækninni en henni fleygir fram um þessar mundir og svo hefur verið í langan tíma.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi fyrirbærið Fjarveru sem er stórmerkilegt fyrirbæri og má sjá þann sem hér stendur í mynd í slíku fyrirbæri, mjög áhugavert allt saman. Einnig má nefna sýndarveruleikaþróun sem nú er að þróast hraðar, kominn tími til, segja sumir, miðað við fyrsta hluta þessarar aldar sem átti að umbylta öllu en gerði það ekki. Þar er mikil framþróun sem býður upp á kosti, t.d. félagslega kosti, og getur gefið nemendum kost á að taka þátt í hlutum og vera meira „involveraðir“, ég man ekki íslenska orðið í augnablikinu, virðulegur forseti, en ella. Við þurfum að hafa augun opin fyrir tækniframþróun sem getur gert þennan kost betri. Ég tel að hann sé ekki bara lykillinn að því að efla getu margra til að taka þátt í námi sem annars ættu erfitt með það eða þyrftu að fórna miklu til þess heldur líka til að efla námsframboð á landsbyggðinni eða á dreifbýlli svæðum.