150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:02]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda fyrir að brydda upp á þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir góð svör.

Menntun er mikils virði fyrir samfélagið allt, hvort sem hún felst í bóknámi, iðnnámi, starfsnámi eða öðru námi. Sé vilji til staðar hjá ungu fólki að afla sér frekari menntunar að lokinni skólaskyldu er brýnt að sá möguleiki sé raunhæfur, óháð því hvar þetta unga fólk býr á landinu. Ungt fólk sem verður að sækja nám utan heimabyggðar á aðeins tvo kosti þegar kemur að húsnæði, þ.e. að leigja húsnæði á almennum markaði eða sækjast eftir íbúð á stúdentagörðunum. Þessir nemendur njóta ekki forgangs inn á stúdentagarðana. Það húsnæðisúrræði er því allt of oft fullt og biðlisti langur og oft til margra ára. Það verður að teljast óboðlegt þegar við horfum til aðstöðumunarins. Tryggja þarf forgang ungs fólks sem ekki á í önnur hús að vernda nálægt háskólanum í félagslegt húsnæði stúdenta. Þegar kemur að leiguhúsnæði á almennum markaði reynist kostnaðurinn afar mikill. Þeir sem ekki njóta aðstoðar foreldra sinna við að standa straum af kostnaði við leigu stóla því enn frekar á húsaleigubætur. Ríkisvaldið býðst til að lækka leigukostnað hjá efnaminni leigjendum. Húsaleigubæturnar ná hins vegar ekki yfir annars konar leigu en þá sem byggir á húsaleigusamningi og þá þarf rýmið að uppfylla ákveðin skilyrði, t.d. sérsalerni, eldhús o.s.frv. Í dag er ekki í boði að leigja t.d. stakt herbergi og sækja húsaleigubætur. Gera ætti nemendum sem eru í þessum aðstæðum kleift að sækja húsaleigubætur á rýmri grunni en almennt er. Við verðum að greiða úr þessum aðstöðumun ungs fólks í dag sem byggir eingöngu á búsetu. Þessi munur má ekki verða til þess að ungt fólk af landsbyggðinni sæki ekki frekara nám, í háskólum landsins eða í menntaskólum, fari í iðnnám eða í verknám, og geti því ekki fært sérfræðiþekkingu til heimabyggðar sinnar að námi loknu.