150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég kom að því í fyrri ræðu minni að heimavistum hefði fækkað við framhaldsskóla hér á landi. Það á einnig við um Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi sem tekur nema af Suðurlandi öllu, líka úr Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og allt austur fyrir Vík. Þar er ekki lengur boðið upp á heimavist fyrir langt að komna nemendur. Þetta hamlar nemum sannarlega að sækja nám og getur bókstaflega komið í veg fyrir að sumir fari í framhaldsskóla og fresti því ótiltekið og sérstaklega nú þegar eftirspurn eftir húsnæði er geysimikil, t.d. á Selfossi, og verð á húsnæði þar hefur hækkað undanfarin ár. Hvað er unnt að gera? Framsögumaður nefndi ýmislegt eins og það að veita þeim nemendum sem koma langt að forgang að húsnæði, t.d. nefndi hann stúdentagarða. Það má gefa afslátt af skólagjöldum, skoða námslánakerfið o.s.frv. En aðalatriðið er að þessum nemendum má ekki gleyma ef jafnrétti til náms á að vera raunverulegt. Þetta snýst auðvitað um efnahag nemenda, að efnahagur komi ekki í veg fyrir að þeir stundi nám og það verði þeim ofviða að sækja sér nám. Þetta er efnahagsleg spurning.

Ég vil fagna sérstaklega hinum nýtilkomnu lýðskólum sem bjóða upp á heimavistir þar sem nemar geta dvalið um nokkurra mánaða skeið og er það kærkomin nýjung, ef svo má segja. Þetta er nú gamalt úrræði í íslenska skólakerfinu. Í tengslum við þetta mætti ræða margt annað, t.d. aðgang landsbyggðarfólks að mörgum öðrum menningarviðburðum og menningaratburðum sem kostaðir eru af ríkinu og okkur öllum. Vil ég þar nefna sinfóníuna, óperuna og ýmislegt annað. (Forseti hringir.) Aðgengi landsbyggðarfólks að þessum atburðum og viðburðum er auðvitað allt annað en þeirra sem búa í höfuðborginni.