150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:09]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. málshefjanda fyrir að hafa átt frumkvæði að umræðu um jafnrétti til náms. Mig langar að höggva í sama knérunn og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason gerði og ræða um minn gamla skóla, Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Það er framhaldsskóli sem hefur umdæmi frá Skaftárhreppi í austri til Ölfuss í vestri. Vegna þessa var rekin heimavist við skólann svo að nemendur sem bjuggu langt í burtu gætu sótt hann. Heimavistin var lögð niður árið 2016 og þar með var jafnrétti til náms gagnvart þeim sem ekki búa í akstursfjarlægð frá Selfossi skert. Því er ekki sama aðgengi að framhaldsskólamenntun fyrir öll ungmenni á svæðinu. Sérstaklega ber að horfa til þess að Fjölbrautaskóli Suðurlands er eini iðn- og starfsmenntaskólinn á svæðinu. Staðan er því sú að nemendur sem búa utan akstursfjarlægðar frá Selfossi þurfa að leigja húsnæði á almennum markaði með tilheyrandi kostnaði.

Í góðri grein sem ungur nemandi við skólann, Sólmundur Magnús Sigurðsson, skrifaði um málið á síðasta ári sagði, með leyfi forseta:

„Börn eiga ekki heima á leigumarkaði og börn eiga að njóta jafnra tækifæra til náms.“

Já, þetta er ekki flóknara en það. Börn eiga rétt á jöfnum tækifærum til náms sem þeim hentar og börn eiga ekki að vera á almennum leigumarkaði með öllum þeim kostnaði og öllum þeim göllum sem því fylgir þar sem þau þurfa að standa á eigin fótum án þeirrar þjónustu og öryggis sem heimavist gefur. Fjarnám er ein leið til að tryggja jafnrétti til náms en einnig þarf að tryggja að heimavist fyrir nemendur sé til boða þar sem það á við og fyrir þá sem það hentar.