150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Eins og flestir aðrir sem hafa hlýtt á ræður um fjarnámið vil ég halda því til haga að það hentar ekkert öllum og hentar ekki öllum tegundum af námi heldur. Menntun er nefnilega alls konar og ég myndi segja að hún verði meira og meira alls konar eftir því sem tímanum fleygir fram. Nú búum við á hinni svokölluðu upplýsingaöld þar sem fólk menntar sig mjög mikið óformlega og án þess að vera í skóla. Það sækir sér einfaldlega upplýsingar, sækir sér þekkingu á hinum og þessum sviðum án þess að spyrja kóng eða prest og hvað þá ríkið.

Eitt af augljósustu dæmunum er eitthvað sem varðar tölvunarfræði, hugbúnaðargerð eða tungumál eða því um líkt. Allt þetta er einfaldlega hægt að læra með tölvu og internettengingu án þess að hafa kennara, án þess að hafa námskrá og án þess að hafa próf. Þá er mjög mikilvægt, finnst mér, að gott kerfi sé til staðar til þess að grípa slíka menntun og viðurkenna hana, fá hana prófaða og fá hana stimplaða þannig að hún sé viðurkennd. Þegar allt kemur til alls, í umhverfi þar sem fólk menntast meira og meira óformlega, öðlast þekkingu og menntun í gegnum starfsreynslu án þess að hafa til þess tiltekin próf, tiltekna stimpla frá menntastofnunum, skiptir máli að sú þekkingaröflun sé viðurkennd sem slík vegna þess að hún er ekki lengur eins og hún var fyrir 50 eða 100 árum. Í dag er þetta auðveldara, upplýsingar eru aðgengilegri, menntun er aðgengilegri, þ.e. óformleg.

Þegar farið er út í þetta kemur fyrir að ákveðin togstreita verði á milli þeirra sem eru formlega menntaðir og vilja að sú menntun sé metin umfram menntun þess sem ekki hefur skólagöngu að baki og svo koma önnur sjónarmið hinum megin frá. Það er mikilvægt að samþætta þetta, þ.e. að við viðurkennum og virðum fyrst og fremst fyrirbærið menntun, óháð því hvaðan hún kemur og hvernig hennar er aflað. Það þýðir líka að menntakerfið okkar þarf að gera ráð fyrir því að fólk menntist utan þeirra stofnana sem hafa sennilega hentað flestum.