150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:16]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör og góða innsýn í þennan málaflokk og hv. þingmönnum fyrir mjög málefnalega og góða umræðu. Hér hefur margt komið fram. Ég ætla að byrja á að taka undir það með hæstv. ráðherra að allt snýst þetta um að við setjum námsmenn í forgang og það þarf að vera óháð búsetu eins og umræðan snýst um. Þær lausnir sem við ræðum til að jafna tækifæri óháð búsetu koma einnig inn á það sem hv. þm. Inga Sæland og fleiri komu inn á, þ.e. að tækifærin þurfa líka að vera jöfn óháð efnahag og þjóðerni og annarri aðstöðu fólks og nemenda. Ég tel að það að finna lausnir eða aðgerðir til að tækifærin verði jöfn óháð búsetu hafi áhrif til góðs á alla þessa hópa.

Mikið hefur verið rætt um mikilvægi fjölbreytileikans í því hvernig náms er aflað og ég tek heils hugar undir það. En ég vil leggja áherslu á það í ljósi þeirrar umræðu sem við erum sérstaklega með hér í dag að staðnám er, ef nota má lögfræðimálið, meginreglan í námi, enn sem komið er alla vega þó að hitt auki valið. En það verður samt að vera val og frelsi fyrir fólk, hvort það vill vera í staðnámi eða fjarnámi eða hvað hentar því best. Aðstæður eru líka mismunandi eftir námsgreinum. Sumt nám þarf að vera staðnám út af sérhæfðum búnaði sem þarf til námsins og öðru slíku. Við megum heldur ekki gleyma félagslega þættinum í staðnáminu sem nemendur eru oft að sækjast eftir og mótar fólk til framtíðar.

Ég tek undir það sem hér var sagt um mikilvægi heimavista. Hv. þingmenn Karl Gauti Hjaltason og Njörður Sigurðsson o.fl. komu inn á það hve heimavistir eru mikilvægar um allt land. Þeir nefndu sérstaklega Fjölbrautaskóla Suðurlands en við höfum slík dæmi víða um land og ég tek heils hugar undir það.

Ég þakka fyrir góða umræðu og vona að við náum árangri í þessu samhengi.