150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Píratar eru á móti því að sveitarfélög séu þvinguð til að sameinast og við greiðum atkvæði með breytingartillögu Miðflokksins um að fella burt 1. lið II. kafla sem fjallar um það að neyða sveitarfélög til að verða ekki fámennari en 1.000 árið 2026. Það er í sjálfu sér ágætt markmið að reyna að hafa sveitarfélögin í það minnsta það stór en það skiptir máli hvernig það er gert. Það skiptir máli að sjálfstæði sveitarfélaganna sé virt í verki, ekki bara út frá einhverjum lagatæknilegum möguleikum heldur að við sýnum í verki að við virðum sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Ég vil þó árétta að þetta mál eitt og sér brýtur ekki í bága við stjórnarskrána, í það minnsta að mínu mati. Hins vegar kveður þessi liður á um aðferðir sem hljóta að gera það og er nánar fjallað um þetta í hinum ýmsu skrifuðu gögnum málsins.

Það má hrósa fyrir þetta ágætismál eftir því (Forseti hringir.) sem við höfum séð hingað til að öllu leyti fyrir utan þetta eina atriði en við getum ekki stutt 1. tölulið II. kafla.