150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar um að styðja tillögu sem Miðflokkurinn leggur hérna fram um að ekki skuli heimilt samkvæmt þessu að þvinga smærri sveitarfélög eða bara sveitarfélög almennt til að sameinast. Þetta byggir á grunngildi Pírata um valddreifingu, að valdi eigi að dreifa. Þetta er valdsamþjöppun og það er ekki í þágu þeirra sveitarfélaga sem hafa í dag rétt til að hafna sameiningu. Þau munu ekki lengur hafa rétt á fullkomnu sjálfræði um þá ákvörðun að sameinast einhverju öðru sveitarfélagi sem þau vilja ekki.

Ég bendi líka á að þeir þingmenn sem ætla að samþykkja þetta mál ættu að horfa til þess hvort þeim hafi verið bent á að þetta stangist mögulega á við stjórnarskrána. Halda menn í alvörunni, og það er það sem lögfræðingur segir mér, að sveitarfélög sem á að þvinga til sameiningar muni ekki fara með mál fyrir dómstóla? Verið meðvituð um að þið eruð kannski að taka illa upplýstar ákvarðanir sem stangast á við stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Þeir sem samþykkja það og tapa málinu fyrir Hæstarétti munu líta út eins og aular í þessu samhengi. (Gripið fram í.)