150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tel þessa stefnumörkun eitt stærsta og besta umbótaverkefnið í íslenskri stjórnsýslu í mjög langan tíma. Þegar hún kemur til framkvæmda mun hún efla stjórnsýslu sveitarfélaganna og auka tækifæri þeirra til að bæta þjónustu við íbúana og jafna hana þannig að allir landsmenn sitji við sambærilegt borð. Það eru tækifæri á mörgum sviðum fyrir sveitarfélögin, að með þessari tillögu með þeim 11 aðgerðum sem hér fylgja verði til nýtt og öflugt sveitarstjórnarstig í landinu sem geti tekist á við ríkisvaldið og okkur hér með miklu mynduglegri hætti en reyndin er í dag.

Ég fagna þeirri niðurstöðu sem nefndin hefur komist að. Ég þakka nefndinni og ekki síst framsögumanninum Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir góða vinnu. Ég hvet þá þingmenn sem hér hafa komið upp og talað mjög sérkennilega um tillöguna að lesa hana aftur og hvet þá til að taka þátt í þeim framförum (Forseti hringir.) sem við munum samþykkja með þessari þingsályktunartillögu í dag.