150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er afskaplega undrandi á því að þetta mál skuli hafa verið keyrt í gegn með þessum hætti og að menn skuli hafa ákveðið að halda inni ákvæði um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga. Jafnvel þegar menn fengu tækifæri til að taka út það tiltekna atriði og halda restinni var því hafnað af langflestum þingmönnum stjórnarmeirihlutans, m.a. þingmönnum flokks sem kallar sig Sjálfstæðisflokkinn. Þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segist í raun og veru vera á móti þessu atriði en ætli samt að styðja þetta.

Herra forseti. Þetta er verulegt áhyggjuefni og enn eitt dæmið um að þessi ríkisstjórn sé að klára dæmigert Samfylkingar-/Viðreisnarmál. Þeir tveir flokkar geta svo einfaldlega hallað sér aftur og fylgst með því fara í gegn en ríkisstjórnin tekur að sér að innleiða vitleysuna. Ég hvet stjórnarflokkana til að kynna sér sína eigin stefnu og starfa í samræmi við hana. (Forseti hringir.)

Ég segi nei.