150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mér þykir mjög miður að heyra hvernig þetta mál er að leggjast í þingsalnum. Sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaga hefur þótt með mikilvægari hornsteinum íslenskrar stjórnsýslu alla tíð og varðandi þann veg sem við erum mögulega að feta okkur út á held ég að það væri skynsamlegt að þingmenn spyrðu sig hvort þetta breytti afstöðu til þess hóps sem hér ætlar að styðja þetta mál hvað varðar, svo ég taki sem dæmi, umræður um að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg hvað Reykjavíkurflugvöll varðar og sjónarmið sem snúa að vegalagningu um Teigsskóg. Við gætum kannski losnað við ljóta grjóthnullunginn fyrir framan Alþingishúsið ef við tækjum ákvörðun um það einn daginn. Ég held að við séum að feta spor út á braut þar sem hv. þingmenn hafa ekki hugsað málið alveg til enda.

Ég mun segja nei við atkvæðagreiðsluna á eftir.