150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég greiði atkvæði með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og styð hana að langmestu leyti. Eins og margir sem hér hafa talað er ég með ákveðnar efasemdir um þau atriði tillögunnar sem lúta að lögþvingun varðandi sameiningu sveitarfélaga, lágmarksfjölda íbúa og þess háttar. Við erum ekki að taka ákvörðun um slíka lögþvingun með þessari tillögu hér í dag. Sú ákvörðun bíður frumvarps til laga sem sveitarstjórnarráðherra mun væntanlega flytja. Ég er sannfærður um að hann hefur heyrt í þingmönnum og heyrt þau sjónarmið sem hafa komið fram bæði í þingsal og í þingnefnd um þau efni þannig að við erum ekki að taka ákvörðun um það. Þrátt fyrir að ég hafi efasemdir um þessi orð þingsályktunartillögunnar (Forseti hringir.) get ég ekki annað en stutt málið í heild en held þó til haga þeim sjónarmiðum sem hafa komið skýrt fram og hljóta að koma til skoðunar þegar málið verður tekið til afgreiðslu með lagabreytingu.