150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem komið er fram núna og vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir kynninguna á því. Það kviknuðu nokkrar spurningar. Fyrst vil ég segja að mér finnst fullkomlega eðlilegt að fulltrúar framkvæmdarvaldsins og þingmenn séu í ríkulegum samskiptum við ýmsa hagsmunaaðila af því að það er hluti af starfi okkar að fræðast og maður fræðist mikið af því að vera í samskiptum við annað fólk. Mér finnst líka eðlilegt að hitta slíkt fólk á fundum, jafnvel tala við það í síma o.s.frv., bara svo því sé haldið til haga. En ég fagna þessu gagnsæi sem hér er.

Mig langar að spyrja aðeins út í starfsval að loknum opinberum störfum sem má sjá um í 5. gr. Ég velti fyrir mér hvers vegna tekin er ákvörðun um að aðstoðarmenn ráðherra lúti ekki ákvæði 5. gr. Ég sé ekki betur en að þarna sé bara um að ræða æðstu handhafa og það er fjallað um að aðstoðarmennirnir séu ekki með. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvers vegna þeir eru ekki með af því að þeir fá jú umtalsverðar upplýsingar í störfum sínum.