150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:39]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög sáttur við það að efla gagnsæi og hagsmunaskráningu. En ég velti því mjög mikið fyrir mér af hverju takmarkanir á atvinnufrelsi eru svona miklar. Ég velti því líka fyrir mér af hverju forseti Íslands er skyndilega ekki einn af æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins, af hverju hann fylgi ekki þarna inn. Það kemur á óvart. Ég velti líka fyrir mér nokkrum praktískum atriðum sem er kannski hægt að laga í meðferð þingsins. Hér er gert ráð fyrir því að ráðherra geti veitt undanþágu. Hver veitir ráðherrum undanþágu? Ég reikna með að forsætisráðherra geri það varðandi aðra ráðherra en hvað með forsætisráðherra ef það er eitthvað hjá honum, sinnir listsköpun t.d., hefur of miklar tekjur eða fær undanþágu o.s.frv.? Ég velti þessu mikið fyrir mér. Aðalatriðið er spurningin: Er nauðsynlegt að takmarka atvinnufrelsið svona mikið? Og af hverju er forseti Íslands ekki inni í þessu?