150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég er alveg sammála því að það sé rétt að skrá slíkt og ég held að það ætti að mögulega að vera hluti af því sem við skráum hér, það sé bara opið, einhvers konar dagbók í þinginu. En ég veit samt ekki betur en það hafi komið fram í máli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar í einhverjum ljósvakamiðlinum að þetta hafi líka snúist um það að vera utan þinghússins og að það hefði verið boðið upp á vatn og snittur á þessum fundi. Það var í þess háttar búningi að það var gert tortryggilegt þrátt fyrir að ég hef fengið þær upplýsingar seinna — nú var fulltrúi Samfylkingarinnar ekki á þessum fundi heldur kom það einhvers staðar fram — að hlutaðeigandi sem voru á fundinum voru ekki sammála, töluðu ekki einum rómi. Þetta var mjög breiður hópur sem var þarna til skrafs og ráðagerða um eitthvert þingmál. Það var ekki eins og þetta væri einn hagsmunaaðili.

En ég held að það sé til fyrirmyndar að þingmenn skrái alla fundi sem þeir halda og skrái hvað þeir gera. Það er algerlega til fyrirmyndar að gera það og ég held að það væri gott að taka það upp í forsætisnefnd að reyna að búa til einhvers konar form á því hvernig við getum gert það þannig að þetta sé bara á undirsíðu þingmanna á alþingissíðunni. Ég myndi fagna því og við ættum kannski að leggja það til við forsætisnefnd.