150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

almannatryggingar.

74. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Maður getur byrjað á því að vera þakklátur fyrir forseta sinn þegar hann vísar málunum í réttan farveg. Ég var í málinu hér á undan galvösk á því að senda það í efnahags- og viðskiptanefnd en auðvitað fer það til hv. atvinnuveganefndar. Þá er ég komin að öðru frumvarpi sem er líka réttlætismál, lítið skref í réttlætisátt. Það er af öðrum toga, lýtur að okkar minnstu bræðrum og systrum sem hafa kosið það að búa erlendis en eiga samt sem áður rétt á því að fá greiðslur úr almannatryggingasjóði okkar.

Með mér á þessu frumvarpi sem lýtur að breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, er Guðmundur Ingi Kristinsson. Frumvarpið felur í sér breytingar á kostnaði við framkvæmd greiðslna. Ég ætla að fara stuttlega yfir það, hef þetta ekki í löngu máli, en það hljóðar svo:

„1. gr. Við 2. mgr. 53. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggingastofnun skal greiða allan kostnað sem hlýst af framkvæmd greiðslna.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir að frumvarp þetta var lagt fram á 149. löggjafarþingi. Ég er sem sagt að tala fyrir þessu máli í annað sinn, það hlaut ekki afgreiðslu þá, mér til mikillar furðu. Eins og maður er að vanda sig að mæla fyrir þessum málum sem maður kemur stoltur með hingað inn er leiðinlegt að þeir sem koma síðan til með að greiða atkvæði um þau, fella þau eða skipta sér ekki af þeim eða samþykkja, skuli ekki vera hér og hafi ekki áhuga á því að fylgjast með.

Sífellt algengara er að lífeyrisþegar flytjist til annarra landa. Það er bara staðreynd, þarf víst ekkert að velkjast í vafa um af hverju það er. Það er vegna þess að þeir búa við slíka fátækt hér heima og hinn margrómaða kaupmáttur er svo veikur hjá þeim að þeir geta hreinlega ekki framfleytt sér hérna. Eins og við sáum í fjölmiðlum um daginn er Ísland talið eitt dýrasta land í heimi að búa í. Það er því sífellt algengara að lífeyrisþegar flytji til útlanda og í þeim tilvikum fá þeir gjarnan greiðslur frá Tryggingastofnun inn á erlenda bankareikninga. Slíkum fjármunafærslum milli landa fylgir talsvert meiri kostnaður eðli málsins samkvæmt en hefðbundnum millifærslum innan lands. Lífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis og bera þann kostnað sem greiðslunni fylgir verða því fyrir skerðingu á réttindum sínum á grundvelli búsetu sinnar. Enn og aftur erum við að mismuna Íslendingum vegna búsetu.

Með frumvarpinu er lagt til að Tryggingastofnun greiði þann kostnað sem hlýst vegna greiðslna opinberra réttinda svo að girt sé fyrir mismunun á grundvelli búsetu að þessu leyti. Þar að auki er Tryggingastofnun, sem stærri viðskiptavinur, í betri aðstöðu til að semja við viðskiptabanka um lægri kostnað á slíkum millifærslum. Þær eru um 3.000 kr. hverju sinni. Ellilífeyrisþegi eða almannatryggingaþegi sem fær mánaðarlegar greiðslur inn á sinn reikning, sama hversu háar þær eru, er látinn greiða 3.000 kr. á mánuði fyrir slíka millifærslu. Hins vegar, ef hann væri hér heima væri ekki um slíkt að ræða.

Það sem ég er einfaldlega að benda á er að Tryggingastofnun væri í lófa lagið að gera mun betri samninga við sinn viðskiptabanka og draga stórlega úr þessum greiðslum. Þetta eru 3.000 kr. á mánuði fyrir hvern lífeyrisþega og það á einfaldlega að setja þá við sama borð og hina sem fá greitt frá almannatryggingum og búa hér heima. Við erum að tala um íslenska ríkisborgara sem margir hverjir hafa hreinlega flúið það ástand sem við höfum skapað þeim hér og geta ekki framfleytt sér á þeirri framfærslu sem þeim er boðin. Þó að einhverjum þyki það ekki merkilegt þá eru þetta 36.000 kr. á ári. Það munar um minna fyrir þann sem á varla til hnífs og skeiðar.