150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

afnám vasapeningafyrirkomulags.

76. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Það er aldeilis að ég er komin hérna að æðsta ræðustól landsins. Allt er þegar þrennt er, í það minnsta í dag. Hér er ég að mæla fyrir þingsályktunartillögu um afnám hins svonefnda vasapeningafyrirkomulags. Með mér á þingsályktunartillögunni er Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að leggja fram lagafrumvarp til breytinga á lögum um málefni aldraðra sem tryggi afnám svokallaðs vasapeningafyrirkomulags og að lífeyrisþegi sem flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili haldi óskertum lífeyris- og bótagreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Markmið frumvarpsins verði að aldraðir fái notið lögbundins fjárræðis og sjálfræðis.“

Í greinargerð segir að þingsályktunartillagan hafi verið lögð fram á 149. löggjafarþingi, 835. mál, og er nú lögð fram að nýju óbreytt.

Landssamband eldri borgara hefur í mörg ár beitt sér fyrir því að breytingar verði gerðar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, þannig að eldri borgarar haldi sjálfræði sínu og fjárhagslegu sjálfstæði óháð heimilisfesti. Í V. kafla laganna er fjallað um kostnað vegna öldrunarþjónustu. Þar er einnig fjallað um þátttöku heimilismanna dvalarheimila í greiðslu þess kostnaðar. Þegar einstaklingur flytur inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili fellur réttur viðkomandi til ellilífeyris niður. Viðkomandi getur átt rétt á ráðstöfunarfé, eða vasapeningum eins og við köllum ráðstöfunarféð, sem á árinu 2019 er að hámarki 74.447 kr., ríflega 18.000 kr. á viku.

Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leggja fram lagafrumvarp sem tryggi sjálfræði og fjárræði aldraðra einstaklinga þegar þeir fara inn á hjúkrunarheimili og að greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði breytt þannig að íbúar haldi lífeyrisgreiðslum sínum og greiði milliliðalaust fyrir húsaleigu, mat og annan kostnað sem fylgir heimilishaldi. Almennar reglur um þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heimilunum verði þó óbreyttar. Gert verði ráð fyrir að íbúar geti átt rétt á húsnæðisbótum og að kostnaðarþátttaka einstaklinga á dvalar- eða hjúkrunarheimilum verði tekjutengd og falli niður hjá þeim sem hafa mjög lágar tekjur.

Árið 1989 fékk Halldór Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Dalbæjar á Dalvík, leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til að breyta hluta Dalbæjar, heimilis aldraðra á Dalvík, í verndaðar þjónustuíbúðir. Halldór skrifaði skýrslu til heilbrigðisráðuneytisins og stjórnar Dalbæjar í október 1990, nokkrum mánuðum eftir að tilraunaverkefninu lauk. Tilrauninni var ætlað að gefa öldruðum kost á að halda fjárhagslegu sjálfstæði. Fjórir karlar og fjórar konur tóku þátt í tilrauninni og niðurstöðurnar voru að þátttakendur í tilrauninni sýndu aukna virkni, félagslífið jókst og ferðir út í bæ urðu fleiri. Þessi tilraun leiðir líkur að því að hið hefðbundna dvalarheimilisform sé neikvætt og hafi alið af sér ótímabæra hrörnun einstaklinga.

Starfshópur um afnám vasapeningafyrirkomulagsins var skipaður í maí 2016 af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, en hann hefur ekki enn skilað niðurstöðum sínum. Í svari félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2018 um afrakstur starfshópsins kom fram að vinna hópsins væri enn á undirbúningsstigi. Já, það tekur sannarlega tíma, virðulegi forseti, að taka utan um eldri borgarana okkar svo að þeir fái nú að lifa hér með reisn. Það skal skipa nokkra stýrihópa og enn fleiri nefndir til að sjálfsögð mannréttindi séu virt þegar kemur að eldri borgurum. Það er ekki eini hópurinn í samfélaginu að vísu, en það skal taka tímann sinn. Nú er árið 2020, virðulegi forseti. Það verður athyglinnar virði að sjá hvort það skipti einhverju máli þótt við gerum tilraunir til að kalla eftir því hvort það sé jákvætt eða neikvætt fyrir viðkomandi að fá akkúrat þetta. Ætli einhver velkist í vafa um að það að láta svipta sig svona sjálfstæði sínu og fjárræði eins og verið er að gera með þessu vasapeningafyrirkomulagi sé lítilsvirðandi? Það er ekki bara það, þetta er enn einn múrsteinninn í það að svipta aldraða reisn sinni. Það er mín skoðun.

Afnám vasapeningafyrirkomulagsins hefur verið á döfinni í mörg ár án þess að þær hugmyndir hafi skilað sér í neinu handföstu. Árið 1990 var sambærilegu fyrirkomulagi í Danmörku breytt. Lífeyris- og bótaþegar sem bjuggu á stofnunum héldu tekjum sínum en borguðu fyrir sig. Það er akkúrat það sem við viljum alltaf fá að gera. Við viljum fá að borga fyrir okkur sjálf. Þess vegna vilja aldraðir, hvort sem þeir eru í dvalarrýmum eða búsetuúrræðum sem okkur ber eðli málsins samkvæmt að veita þeim ef þeir þurfa á því að halda, fá að halda sjálfstæði sínu og fjárræði. Ég átta mig eiginlega ekki alveg á því út af hverju það er ekki og hverjum hafi dottið það í hug. Ég er ekki með það hér, annars hefði ég nafngreint viðkomandi. Hverjum datt í hug að svipta aldraða fjárræði sínu og sjálfstæði? Þetta er hugmyndafræði sem ég aðhyllist ekki, svo mikið er víst.

Ég ætla að endurtaka að það hafði ekki endilega í för með sér þegar Danirnir breyttu þessu að þeir hefðu meira fé á milli handanna. Við búum ekki til peninga með því að fá að ráðstafa því sjálf eða láta einhvern annan sjá um útborgunina fyrir okkur. Þetta snýst einfaldlega um að þeir fjármunir sem við eigum rétt á að fá inn á okkar reikning og fá útborgað mánaðarlega eða hvernig sem það er séu okkar fjármunir og að það séum við sem fáum að borga það. Þó að við yrðum að borga hverja einustu krónu í þá þjónustu sem við viljum kaupa og þurfum á að halda erum það við sem greiðum það en ekki einhver milliliður. Við viljum ekki að réttindin séu tekin af okkur þegar við stígum yfir þennan þröskuld sem er til að hlúa að okkur.

Með þessari þingsályktunartillögu er því einfaldlega beint til félags- og barnamálaráðherra að endurskoða strax vasapeningafyrirkomulagið, ekki á næsta ári, ekki eftir tvö ár, ekki eftir tíu ár, ekki setja málið í nýja nefnd, ekki annan stýrihóp — heldur núna strax. Við hljótum að geta einhvern tímann unnið eitthvað núna strax. Til þess erum við kjörin, ekki satt?

Þannig viljum við að aldraðir haldi sjálfræði inni á stofnunum í eins ríkum mæli og kostur er svo að sem minnstar breytingar verði á högum fólks og háttum þegar það þarf á breyttu búsetuúrræði að halda. Ég hvet alla þá 59 sem ekki eru staddir hérna, 58, einn hlustar þarna mjög ánægður á okkur, a.m.k. til að skoða þetta með tilliti til þess hvað þetta skiptir miklu máli fyrir þjóðfélagshópinn sem við erum að berjast fyrir, fyrir afa okkar og ömmur, pabba okkar og mömmur og þá sem þurfa á því að halda að nýta sér þau búsetuúrræði sem okkur ber að veita þeim. Eins og alþjóð veit höfum við ekki staðið okkur allt of vel í þeim efnum og ætla ég ekki að fara að ræða um fráflæðisvandann svokallaða, eitthvert furðulegasta og andstyggilegasta orð sem ég þekki. Með fullri virðingu, virðulegi forseti, get ég ekki annað sagt en að ég kalla það ekki fráflæðisvanda þegar eldri borgurunum okkar er stillt upp við vegg og þeir látnir sitja og liggja á göngum Landspítala – háskólasjúkrahúss tilbúnir að fara heim en fyrir þau er ekkert búsetuúrræði að fá.

Þetta er eiginlega dýrasta úrræðið sem til er, ekki bara hér á landi heldur sennilega þótt víðar væri leitað. Þetta er eitt af því sem við gerum, við erum gjörn á að borga mörgum sinnum meira fyrir hlutina en við þurfum að gera. Við forgangsröðum fjármunum þannig að stundum finnst mér við taka þá bara hreinlega og fleygja þeim út um gluggann á sama tíma og við erum ekki tilbúin að rétta þá í fangið á okkar minnstu bræðrum og systrum. Þessi þingsályktunartillaga sem ég er að setja í fangið á hæstv. félags- og barnamálaráðherra snýst um fullorðna fólkið okkar sem allir stjórnmálaflokkar hafa sagt, hver einasti — ég hef ekki séð eða heyrt í einum einasta kjörnum fulltrúa sem ekki segir að það sé algjörlega í hjarta hans að eldra fólk og fullorðnir fái að lifa hér með reisn, að efri æviárin eigi að vera áhyggjulaus. Við eigum að búa þeim þannig skilyrði að þeir fái að lifa með reisn.

Betur má ef duga skal, virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga er lítið skref í rétta átt. Hún mun ekki kosta ríkissjóð eina einustu krónu. Hún breytir bara umgjörðinni á núverandi ástandi sem hefur svipt eldra fólk sem er í þessari búsetu sjálfstæði sínu og peningalegu forræði. Það sem við erum að tala um er að gefa því sjálfstæði sitt, sjálfræði og fjárræði og leyfa því sjálfu að greiða fyrir þá þjónustu sem það fær.