150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

skipunartími ráðuneytisstjóra.

[10:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Á vef forsætisráðuneytisins 20. nóvember 2019 birtist frétt undir yfirskriftinni „Ráðuneytisstjóraskipti í forsætisráðuneytinu um næstu áramót“. Þar er greint frá því að Bryndís Hlöðversdóttir, þáverandi ríkissáttasemjari, taki við sem ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu af Ragnhildi Arnljótsdóttur sem færist til í tengslum við nýtt embætti í utanríkisþjónustunni. Þó að efni fyrirspurnarinnar snúi ekki að persónu ráðuneytisstjóra hafði Bryndís Hlöðversdóttir verið ríkissáttasemjari frá 1. júní 2015 og fimm ára skipunartími hennar miðað við það hefði átt að renna út um mitt ár 2020.

Spurningin sem mig langar til að leggja fyrir hæstv. forsætisráðherra er hvort ráðherra líti svo á að skipun nýs ráðuneytisstjóra frá og með 1. janúar sl. hafi virkjað nýtt fimm ára skipunartímabil eða hvort nýtt fimm ára tímabil, ef sú ákvörðun verður tekin, hefjist um mitt ár 2020 þegar fimm ára skipunartímabil þessa tiltekna embættismanns sem ríkissáttasemjara tekur enda. Er sem sagt um að ræða nýtt fimm ára tímabil við upphaf starfa embættismannsins í ráðuneytinu, sem ráðuneytisstjóra, eða lítur forsætisráðherra þannig á að skipunartíma hennar ljúki um mitt þetta ár og endurnýist frá þeim tímapunkti?