150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

skipunartími ráðuneytisstjóra.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ákvæðið sem hv. þingmaður vísar í snýst í raun og veru eingöngu um þær aðstæður ef viðkomandi embættismaður verður fyrir kjaraskerðingu við tilflutning, þá séu kjör hans ekki skert út embættistímann. Þetta ákvæði tel ég vera til að verja viðkomandi embættismenn gegn kjaraskerðingu í tilflutningi og var a.m.k. ekki skilið af minni hálfu og minna ráðgjafa í þessu máli sem að þarna væri verið að verja þennan skipunartíma sérstaklega.

Almennt um þau mál sem hv. þingmaður reifar hér tel ég að innan Stjórnarráðsins og innan hins opinbera megi vera mun meiri hreyfanleiki en áður hefur sést og ég tel vilja löggjafans algjörlega skýran í einmitt þeim lögum sem hv. þingmaður vísar til. Það er vilji til þess að það sé hreyfanleiki milli starfa. Ég tel það gott fyrir hið opinbera að hreyfanleiki sé meiri. Ég tel satt að segja að þessi heimild hafi ekki verið nýtt nægjanlega þegar litið er til baka í gegnum árin, að það hafi ekki verið nægjanlegur vilji til að auka þennan hreyfanleika innan hins opinbera, sem ég held að sé mjög hollur og góður fyrir alla aðila.