150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

lögþvinguð sameining sveitarfélaga.

[10:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessu nema hæstv. ráðherra sé að segja að honum þyki sjálfsagt að lögþvinga sveitarfélög, að þótt þau séu sjálfbær sé það bara löggjafans að ákveða að þau séu samt sem áður ekki nógu hagkvæm og þau skuli sameina. Hann vísar í fulltrúana sem eru í stjórnum sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og öðru slíku. Ég sé ekki fyrir mér að við getum kannski safnað 10–20 manns í hverjum kosningum og látið þá fara inn í kjörklefann í umboði okkar allra hinna. Ég tel að hvert og eitt einasta okkar eigi að fá að njóta sín og það sé lýðræði, að við eigum sjálf að fá að kjósa og segja til um hvað okkur finnst, hvað við viljum. Í þessu tilviki þegar lítið sveitarfélag er sjálfbært og við þurfum ekki að greiða með því og það stendur undir sér sjálft þá finnst mér sannarlega eðlilegt og sjálfsagt, í því réttarríki og því lýðræðisskipulagi sem við viljum vera láta að við búum við, að það fái að njóta vafans og fá að halda sínu algerlega án okkar íhlutunar og lögþvingunar.