150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:16]
Horfa

Karen Elísabet Halldórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda og heilbrigðisráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu með okkur. Umræðan vekur mig til ákveðinna hughrifa um jafnrétti. Við sem erum komin á miðjan aldur og sum hver aðeins meira en það munum að konur báru hitann og þungann af rekstri heimilis og umönnun aðstandenda. Svo líður tíminn. Atvinnuþátttaka kvenna í dag er til jafns á við karla. Orð dagsins er jafnrétti. Foreldrajafnrétti og launajafnrétti er hugtök sem við Íslendingar tökum mjög alvarlega en það er ekkert langt síðan að þau urðu hreinlega til í íslenskri tungu. Því skýtur það vissulega skökku við í samfélagi sem miðar að því að jafna hlut kvenna og ólíkra hópa eins mikið og við höfum gert að sjá þennan sláandi mun á hlutfalli kvenna, 50 ára og eldri, sem fara á örorku versus karla. Þá hlýtur maður að spyrja hvers vegna. Getur verið að konur biðji ekki um hjálp, að við gerum þetta bara sjálfar, tökum þetta á hnefanum? Er það af því að hjálpin býðst ekki eða af því grunnstoðirnar í samfélaginu eru ekki nógu sterkar?

Þá kemur að því hvað við getum gert og hvað við höfum vissulega verið að gera undanfarin ár. Við getum, eins og heilbrigðisráðherra las hér upp rétt áðan, farið í öll þau fjölmörgu verkefni sem eru mikilvæg, eins og að fjölga hjúkrunarrýmum, auka við dagdvalir aldraðra, brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og fjölga sambýlum fyrir fatlaða. Allt þetta er í vinnslu hjá þessari ríkisstjórn og mig langar að bæta við að hver einasta sveitarstjórn á landinu er einmitt að vinna að því hörðum höndum og þarf á stuðningi Alþingis til þess að verða við því svo sómi sé að.

Svo getum við líka alið börnin okkar upp þannig að þegar við erum orðin gömul og grá þá lendi þetta ekki bara á dætrum okkar heldur samfélaginu öllu.