150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir þessa sérstöku umræðu. Að mínu mati hefur hún marga vinkla. Það er auðvelt að tala um hve framarlega Ísland sé í jafnrétti á ýmsum sviðum og allur gangur er á því hvort fólk vilji stæra sig af því eða benda á það sem enn er eftir. Það er mikilvægt að við höfum í huga, þegar kemur að því að stefna að jafnrétti, að það felur ekki í sér að breyta einfaldlega einhverri löggjöf þannig að þar sé það skilgreint að karlar og konur standi jafnt. Það eru hliðaráhrif af meira eða minna öllu sem við gerum og þau hafa misjöfn áhrif á fólk eftir stöðu þess og þar á meðal kyni. Eitt skýrasta eða einfaldasta dæmið sem ég veit um er þegar yfirvöld þurfa að örva efnahaginn þannig að þau fara í einhverjar svakalegar framkvæmdir til að dæla peningum út í hagkerfið og búa til vinnu. Þá eru allar líkur á því að úr verði byggingarframkvæmdir og karlastörf. Þess vegna er svo mikilvægt, áður en við tökum ákvarðanir, t.d. í almannatryggingakerfinu eða þegar kemur að því að skapa umgjörð um fólk sem er veikt eða stríðir við fötlun eða eitthvað því um líkt, að við áttum okkur á því að slíkar aðgerðir hafa misjöfn áhrif á ólíka hópa í samfélaginu. Í samfélagi sem skiptist í öllum meginatriðum í tvo jafn stóra hópa karla og kvenna, með smáskekkju, er auðveldara fyrir okkur, myndi maður halda, að greina misjöfn áhrif eftir kyni en þegar kemur að öðrum hópum sem fólk tilheyrir, kynþætti, trúarbrögðum, uppruna eða tungumáli eða hvaða öðrum hópi sem er. Þess vegna er svo mikilvægt, þegar við tökum ákvarðanir hér, að við lítum ekki bara á ákvörðunina og akkúrat það markmið sem við erum að díla við hverju sinni heldur líka á þessi hliðaráhrif sem lenda misjafnlega á hópum eftir stöðu þeirra.