150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni innilega fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur hér í dag og taka þátt í henni. Ég fékk kynningu á þessari skýrslu sem ágætur Kolbeinn H. Stefánsson birti okkur og vann fyrir Öryrkjabandalagið og maður veltir óneitanlega fyrir sér ástæðunum. Hvernig hefur þjóðfélagið okkar breyst? Hvernig er þjóðfélagsgerðin okkar? Hvernig er álagið á konum? Hvernig hefur fátækt, sem við erum að berjast gegn af öllu afli, a.m.k. einhverjir hér, orðið þess valdandi að það þarf alltaf tvo til í láglaunastéttum til að geta alið önn fyrir sér og sínum. Úrtakið er miðaldra konur og þetta sýnir hvernig við á þessum aldri brennum hreinlega út og lendum í þeirri stöðu að fara á örorku og verða óvinnufærar. Það var þannig á þessum tíma að karlinn kom oftar en ekki heim úr vinnunni og gekk að sínum mat en konan, sem líka hafði unnið úti allan daginn, eldaði og skúraði og skrúbbaði og bónaði og sá um krakkana. Þannig var það fyrir nokkrum áratugum og ég held að það sé það sem er að skila sér til okkar núna.

Ég er að vona að samfélagsgerðin mótist nú af meiri tillitssemi að þessu leyti til. Ungu karlarnir okkar og drengirnir eru farnir að verða jafn miklar mömmur og við, þeir eru pabbar og mömmur og við erum það líka. Ég er að vona að í framtíðinni sjáum við ekki þá svörtu og neikvæðu mynd sem hér er, ég er að vona að það sé framtíðin. Ég vona að það sé rétt sem ég skynja að pör séu farin að vinna betur saman í fjölskyldum og það muni skila sér í því að við konur dettum ekki út af vinnumarkaði eins og kemur fram í þessari skýrslu, að næsta skýrsla sem kemur út sýni annað.