150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem er gríðarlega mikilvæg. Þetta er samfélagsverkefni eins og kom fram í máli hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson. Þetta er samfélagsverkefni sem við berum öll ábyrgð á en því miður er með þetta samfélagsverkefni eins og mörg önnur að það er svolítið keyrt áfram á viðhorfinu „þetta reddast“. Um leið og það viðhorf er okkur ákaflega gagnlegt á stundum bitnar það líka svolítið harkalega á okkur núna af því að það sýnir sig að þetta þriðja starf sem bitnar einna helst á konum á Íslandi og örugglega víðar, leiðir einmitt hjá þessum sama hópi, konum yfir fimmtugu, til vanlíðunar og til örorku. Það sést í nýjum skýrslum að þessi hópur keyrir sig mun meira út hér á landi en aðrir hópar. Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er nefnilega meiri en í samanburðarríkjum. Hún er meiri en víðast hvar um heiminn. Ég held hún sé bara einna mest á Íslandi af öllum löndum heims. Þegar svo kemur í ljós að á Íslandi eru landsmenn að taka meiri þátt í að sinna langveikum, fötluðum, öldruðum ættingjum, leggst það ofan á umtalsverða atvinnuþátttöku þjóðarinnar. Þetta þriðja starf leggst algerlega ofan á.

Það er samfélagsverkefni okkar hvernig við ætlum að standa saman að því að búa öllum gott líf, bæði þeim sem þurfa að þiggja aðstoð í sínum daglegu störfum en líka þeim sem, til hliðar við sitt daglega starf, veita aðstoðina.