150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:32]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er búin að vera alveg ótrúlega góð og ég vil enn og aftur þakka framsögumanni kærlega fyrir. Það er margt gott sem verið er að gera. Það má ekki hverfa frá því að hugsa þannig að verið sé að stíga ákveðin góð skref, það er verið að gera, en við þurfum auðvitað að halda áfram að leita leiða.

Það sem eftir stendur hjá mér núna þegar ég kem hér upp í annað sinn er að fyrir ekki svo löngu síðan áttu fjölskyldur saman heimili í stóru húsi þar sem kynslóðir voru hreinlega undir einu og sama þakinu. Við erum komin töluvert langt frá þeirri hugsun en þar var það sjálfsagt að þeir sem yngri voru tóku utan um þá sem eldri voru og einhvern veginn leið lífið áfram með sínum gleðistundum og sorgarstundum.

Það sem ég dreg kannski út úr umræðunni í dag er sérstaklega það að við þurfum að skoða betur hver upplifun þeirra er sem einhverra hluta vegna hafa þurft að reiða sig á umönnun skyldmenna, hvort við eigum hreinlega einhverjar rannsóknir á því, vegna þess að þar gæti verið pottur brotinn. Mér er umhugað um rétt þeirra sem þurfa á slíkri umönnun að halda og velja sér kannski ekki endilega umönnunaraðila vegna aðstæðna. Sú rödd mætti heyrast betur og við hér inni mættum gefa henni gaum.