150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[12:07]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þessa skýrslu og skýrslubeiðni hv. þm. Ingu Sæland og framsögu þeirra beggja, hæstv. ráðherra og hennar. Ráðherrann fór yfir staðreyndir úr skýrslunni og rannsóknum fræðinga. Ég hef velt fyrir mér þeirri spurningu núna í morgun hversu mikið við stjórnmálamenn eigum að fjalla um vísindi hér á Alþingi, þar sem vísindamenn eru sérfræðingar í vísindum. Þetta er mjög viðkvæmt og hefur raunar farið meira í þá áttina að við förum einvörðungu eftir ráðgjöf fiskifræðinga, t.d. í úthlutun aflahlutdeilda, og það er vel. Hér á árum áður vorum við meira að setja puttana í þetta sjálfir, eða ráðherrarnir, en nú er það orðið þannig að það er algjörlega farið eftir vísindamönnum og er það framför.

Þetta er alvarleg staða sem komin er upp í loðnu og það fara náttúrlega af stað alls konar lærðir og ólærðir vísindamenn til að finna orsök stöðunnar. Það sem maður hnýtur mest um eða vekur mesta athygli í skýrslunni er það að kaldari sjór hefur leitað norðar og loðnan er kaldsjávarfiskur og hefur þar af leiðandi elt þennan kalda sjó. Það hefur verið meira um það síðustu árin að loðnan hafi færst norðar og hefur verið erfiðara að finna hana nær. Allar vangaveltur um hvað sé veiðum að kenna og veiðarfærum eru náttúrlega réttlætanlegar en þær eru kannski ekki endilega alltaf réttar. Spurningin um hvort flottroll hafi mikil áhrif á göngu loðnunnar — ég hafði sjálfur miklar skoðanir á því fyrir nokkrum árum en hef svolítið mýkst í því eftir að hafa fengið upplýsingar hjá vísindamönnum um það. En að sjálfsögðu eigum við að gæta okkar í því með veiðarnar. Við erum rosalega háð því hvernig viðgangur lífríkis er og við ráðum ekkert mikið við það. Það er alveg sama hvað við rannsökum mikið, það framleiðir ekki fisk í sjónum. En það er um að gera að rannsaka samt sem áður orsök og ástæður þess hvernig lífríkið gengur fyrir sig. Þegar þetta kemur inn á borð okkar í stjórnmálunum erum við að mestum hluta að ræða um verðmæti. Auðvitað kemur þetta rosalega mikið við vissa staði og þjóðarbúið í heild ef það er staðreynd að við erum að fara núna inn í annað árið í röð þar sem verður ekki veidd loðna, þótt maður bindi veika von við að eitthvað verði hægt að veiða. En við höfum gengið í gegnum slíkt áður, eins og kom fram áðan, t.d. í sambandi við úthafsrækjuna. Mig langar líka að nefna karfann og svo er humarinn á válista.

Hér fyrir nokkrum árum var veitt mikið af þorski norður í Barentshafi, svokallaðar Smuguveiðar. Þær gengu það vel að þær voru farnar að skipta þjóðarbúið miklu máli og voru komnar inn á borð ríkisstjórnar eða stjórnmálanna, farið var að gera ráð fyrir þessum peningum í fjárlögum. Síðan klikkuðu þessar veiðar og þá varð að stroka þá út. Einhverjir fengu kvóta en hann er það lítill að menn eru jafnvel ekki að beygja sig eftir honum, en þarna var þetta farið að skipta miklu máli.

Ég vil bara segja að auðvitað verðum að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar við erum að ræða þessi mál. Allar fullyrðingar eru erfiðar og samspil veiða og vísinda þarf að vera það sem við höfum í hávegum. Loðnan skiptir rosalega miklu máli í lífríkinu, sérstaklega fyrir þorsk og eins fyrir annan fisk eftir að hún hrygnir og leggst á botninn. Þetta er því grafalvarlegt mál. En öll stóryrði, allt sem lýtur að því að kenna einhverju um er mjög viðkvæmt og mér finnst að við eigum að ræða þetta með opnum huga og reyna að komast að því hvað veldur. Ég er enginn vísindamaður en ég dreg þá ályktun að það sé þessi færsla kaldari sjávar norður á við. Það kemur einmitt fram í skýrslunni að það sé ekki endilega samspil á milli kaldari sjávar og hlýnandi loftslags, sem er mjög athyglisvert. Það væri hægt að ræða þetta miklu lengur en ræðutíminn er að verða búinn. Ég þakka bara fyrir umræðuna og mun hlusta af athygli áfram.