150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[13:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það er mjög alvarlegt áfall fyrir atvinnulíf og efnahag þjóðarinnar þegar fiskstofn á borð við loðnu hrynur. Það er ekki hægt að tala um neitt annað en hrun, virðulegi forseti, þegar lítið eða ekkert er hægt að veiða úr næststærsta nytjastofni þjóðarinnar um árabil og framtíðarhorfur varðandi nýtingu stofnsins eru dökkar. Ég vil þakka sérstaklega öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari þörfu umræðu fyrir málefnalega umfjöllun og fyrir það að víkka út sýn okkar á ástandið eins og það er. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans góðu skýrslu því að það var hann sem sá til þess að henni var fleytt af stað að minni ósk og fleiri þingmanna. Ég vil sérstaklega mælast til þess að gert verði stórátak í hagrænum vistfræðirannsóknum á loðnu allt í kringum landið með tilliti til þess ástands sem við horfumst í augu við nú.