150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held ég muni það rétt að síðast þegar var rætt hér í þingsal um fjölskylduvænan vinnustað hafi Pétur heitinn Blöndal fengið stjórnlaust hláturskast um miðja nótt. Ég er búinn með mitt hláturskast, fyrir lífstíð held ég, svo ég er ekki viss um að ég fái það núna.

Ég velti fyrir mér hvað sé átt við með fjölskylduvænum vinnustað. Í mínum huga er þetta hús ekki vinnustaðurinn. Vinnustaðurinn er kjördæmið eða landið allt. Það er minn vinnustaður. Ég lít ekki á þingmennsku sem starf í eiginlegum skilningi. Við erum bara hluti af löggjafarvaldinu. Ég kem því ekki alveg heim og saman að tala um þetta eins og önnur hefðbundin störf og vinnustað.

Það segir í greinargerðinni að tillagan sé lögð fram vegna þess að nauðsynlegt sé að leggja til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis svo að þingmennskan megi vera á færi allra, óháð kyni, búsetu og fjölskylduaðstæðum. Það er ekkert starf þannig að það henti öllum, hvorki þingmennskan né önnur störf. Það hentar ekki öllum að vinna vaktavinnu. Aðstæður hjá öðrum geta verið þannig að dagvinna hentar ekki. Þetta getur verið með margs konar hætti. Ég held að það sé algerlega útilokað að gera þetta starf sérstaklega fjölskylduvænt fyrir þingmenn sem búa fjarri þessum stað hér, eðli málsins samkvæmt. Það er samt enginn skortur á frambjóðendum og komast færri að en vilja.

Ég skil ekki alveg þessa umræðu, sérstaklega vegna þess að þetta starf, ef starf skyldi kalla, er með þeim hætti að þú getur stjórnað tíma þínum mjög vel, ólíkt öðrum sem starfa í þessu samfélagi. Ég veit um fá störf þar sem ekki er eitthvað sem reynir á fólk, þar sem ekki kemur upp sú staða á vinnustaðnum að menn þurfi stundum að vera lengur. Það fólk á miklu erfiðara með að stjórna því en við. Við getum skipt með okkur verkum eftir hentugleika. Við þurfum ekki að vera í þingsalnum í umræðu í þeim málum sem við ætlum ekki að taka til máls í. Og séu aðstæður okkar þannig að við ætlum að taka til máls en eigum erfitt með það þá getur einhver hlaupið í skarðið. Ég held að þessi tillaga ætti frekar við öll önnur störf í landinu en okkar.

Ég kem því með engu móti heim og saman að þetta snúist um jafnréttissjónarmið. Starfið er ekki þannig. Það er hins vegar alveg ljóst að ef menn ætla að reyna að sækjast eftir endurkjöri þá þurfa þeir að leggja mikið á sig. Menn geta sagt að það sé ekki fjölskylduvænt en það er bara krafa umbjóðenda okkar að við leggjum svolítið á okkur og það er ágætiskrafa. Ég hef litið svo á að við séum meira og minna „alltaf“ í vinnunni á einn eða annan hátt. En staðurinn er ekki hérna, það er bara landið og miðin.

Mér finnst þessi umræða eiginlega svolítið brosleg en það er ekki þar með sagt — og þá kemur lykilatriðið — að við getum ekki skipulagt starfið í þingsalnum betur. Sjálfsagt er það hægt en það er mjög erfitt án þess að breyta reglum um ræðutíma þingmanna. Við hlustum á þingmenn endurtaka hver eftir öðrum, ekkert nýtt í umræðunni og umræðan stendur fram á kvöld. En það er okkur sjálfum að kenna, eigin þingflokkum. Við verðum að hafa stjórn á þessu. Auðvitað er hver þingmaður sjálfstæður í því og við tökum ekki af honum réttinn en þetta er vandamálið sem við erum að glíma við, sem er okkur sjálfum að kenna, að sum umræða á þingi er allt of löng. Það er fullt af þingmönnum sem taka til máls í nánast öllum málum, sérstaklega í þeim málum sem þeir hafa enga þekkingu á. Þeir eru með margra klukkutíma ræður og fá að fara í fjölmiðla sem ræðukóngar. Sumir halda að það séu duglegustu þingmennirnir. Í mínum huga eru það þeir þingmenn sem gera minnst gagn. Svona verður umræðan og einhvern veginn mótast hjá okkur sjálfum að þetta sé ógurlega ófjölskylduvænn vinnustaður og hér sé allt ómögulegt. Ég hef sjálfur aldrei unnið jafn fjölskylduvænt starf á ævinni, á allri starfsævinni, frá því að ég byrjaði að vinna sem sumardrengur. Þess vegna finnst mér þetta mjög skrýtið. Þetta starf hentar ekkert öllum, ekki frekar en önnur störf, en því verður ekki breytt nema við breytum því sjálf með því að stytta ræðutímann og hafa einhverja stjórn á eigin þingflokkum. Það er ekki flóknara en það.

Í staðinn fyrir að koma með þingsályktunartillögu af þessu tagi held ég að við ættum að byrja að ræða þetta innan þingflokka og reyna að ná einhverju samkomulagi um skynsamlega breytingu á þingsköpum þannig að menn séu ekki að mala hér heilu og hálfu dagana um ekki neitt. Ég sat í forsetastóli nótt eftir nótt að hlusta á orkupakka þrjú. Ég ræddi hann ekki sjálfur en ég hlustaði á umræður um hann. Í norska þinginu var hann afgreiddur á nokkrum klukkutímum meðan við vorum með vel á annað hundrað klukkutíma. Það var ekki fjölskylduvænt að vera forseti þingsins við þær aðstæður en þetta var hins vegar frávik. Þetta eru undantekningar. Ég sá ekkert eftir því að hafa setið í forsetastóli við þær aðstæður. Ég lærði heilmikið. Maður lærir heilmikið af því að hlusta og maður verður að hlusta, kemst ekki hjá því.

Ég hef engan áhuga á svona tillögu. Þetta hefur ekkert með flutningsmann að gera, mér líkar afskaplega vel við hann. Ég held að við séum algjörlega á villigötum. Þetta er bara umræða út í loftið í mínum huga. Þetta er svo sem í takt við margt annað í samfélaginu; öllum finnst þeir hafa svo mikið að gera, allir eru orðnir svo þreyttir, allir kulnaðir og að niðurlotum komnir. Samt held ég að menn hafi aldrei unnið jafn lítið í Íslandssögunni. Þetta er auðvitað bara hugarfar og sumir segja nútíminn. Ég er ekki alveg kominn í nútímann og hef kannski aldrei verið þar almennilega.