150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:40]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom inn á stærð þingflokka. Ég veit að sumir þingflokkar eru allt of litlir. Þess vegna lagði ég til lögþvingaða sameiningu þeirra. Það segir sig sjálft að það er mjög erfitt að vera inni í öllu og taka þátt í öllu í tveggja og þriggja manna þingflokkum, jafnvel fjögurra manna. Það er annað skipulag sem er vandamálið þar.

Það er hárrétt líka hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt að þingmenn geti hitt kjósendur um allar trissur, en það skapar mikið vandamál í íslensku samfélagi að menn skuli leyfa sér það vegna þess að það kostar. Það er ekki víst að allir átti sig á mikilvægi þess að menn vinni í umboði einhvers, hitti fólk og hlusti. Sumir þingmenn líta á það sem einhvers konar spillingu eða vanhæfi, að maður geti ekki tekið þátt í slíku samtali við kjósendur af því að maður fær kannski kaffibolla í leiðinni.

Umræðan í íslensku samfélagi er að mínu viti komin út í slíkt rugl að það verður alltaf erfiðara, hvað sem við gerum, að hitta kjósendur. Menn líta alltaf neikvæðum augum á starfið og grafa undan virðingu Alþingis á sama tíma og þeir halda að þeir séu einhverjir varðmenn um virðingu þess. Við erum á hættulegri braut og fjölmiðlar standa sig ekki í því að reyna að útskýra í hverju þetta starf felst, hversu mikilvægt það er og hversu mikilvægt það er að við hittum fólk úti um allt, að við hlustum og gerum okkar besta. Þetta er ótrúlega mikilvægt en það er grafið undan þessu á hverjum einasta degi í mínum huga.