150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst afskaplega notalegt að hlusta á sjálfan mig en ég kemst samt ekki með tærnar þar sem sumir hafa hælana í þessum þingsal. Það er alveg rétt að aðstæður þingmanna eru mismunandi. Þingmenn í stóru landsbyggðarkjördæmunum, menn sem búa langt frá þessum þingstað hér, lifa ekki hefðbundnu fjölskyldulífi eins og við sem búum í Reykjavík. Það er alveg hárrétt, en við komumst ekkert hjá því. Þetta á við um mörg önnur störf. Það sem truflar mig mest í kringum umræðu um þingstörf er að hún hefur verið svo neikvæð í samfélaginu og við höfum ekki almennilega þorað að svara fyrir okkur, erum alltaf einhvern veginn í vörn. Nú síðast var verið að tala um hvað hver þingmaður fengi. Inni í því er hótelkostnaður í ferðum sem ég óskaði ekki eftir að fara. Þá er það látið líta út eins og tekjur fyrir mig, flugferðin er tekjur fyrir mig og ég kosta orðið 17 milljónir. Fjölmiðlarnir leggja þetta sjálfir svona upp. Hvernig eigum við að geta aukið virðingu Alþingis þegar umræðan í fjölmiðlum er svona og fjölmiðlarnir leiða hana?

Það sem er raunverulega ekki fjölskylduvænt í þessu starfi er hvað fjölskyldur þingmanna þurfa að þola. Það er það eina sem ég vorkenni í þessu máli, ekki mér heldur fjölskyldu minni þó að hún kvarti ekki neitt.