150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í mínum huga er íhaldssemi dyggð (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og breytingar eiga að gerast hægt og rólega. Ég er ekki hrifinn af byltingum. Þær hafa aldrei reynst vel. Menn eiga að gera breytingar að vel athuguðu máli. Í mínum huga er kirkjan ekki nógu íhaldssöm en það er önnur umræða. Umræðan er auðvitað gagnleg. Ég ræð ekkert við það þó að menn haldi að ég sé truntulegur, karakterinn er bara þannig þó að ég ætli ekki að vera það. Útlitið er líka þannig, en það er óviðráðanlegur hlutur.

Umræðan er út af fyrir sig gagnleg og ég tek undir það með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni að við þurfum að hafa meiri aga í okkar störfum, að umræðan sé skipulagðari og þá verður hún auðvitað miklu markvissari en ef hver hrópar eitthvað úti í sínu horni og jafnvel margir að tala um sama hlutinn innan sama flokks. Við getum bætt okkur. Við höfum margsinnis rætt það innan þingsins og milli þingmanna að skipuleggja okkur betur. Síðan kemur alltaf eitthvert hitamál og það verður svo mikilvægt og það er allt undir og allt fer í sama farið og sama ruglið og áður. Við getum eiginlega ekki skammað neinn nema okkur sjálf.