150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:55]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það sést af þessum umræðum að Alþingi stendur okkur nærri. Við sem hér erum höfum greinilega öll áhuga á velferð Alþingis og að það starfi vel. Umræðan er þess vegna þörf. Það er verst hversu fáir eru í þingsal, mjög margir þingmenn þyrftu að vera með og hlusta á okkur. Það er líka ágætt að við tölum hérna öll af þekkingu af því að við erum þingmenn og þekkjum þingstörfin vel. Ég hef unnið mörg störf um ævina og vil meina að það að vera alþingismaður sé það sem hefur gleypt mig allra mest, einfaldlega vegna þess að starfið er þess eðlis að maður er hér nánast öllum stundum og ef ekki hér er maður heima hjá sér eða einhvers staðar á ferðalagi og vinnur að einu og öðru sem þarf að standa skil á. Ég er búinn að sitja nokkur þing þannig að ég hef dálítið viðmið. Ég tók viðveruna saman, ég held að það hafi verið í hittiðfyrra, venjulegan mánuð þar sem voru ekki utanlandsferðir. Þetta er ekki mjög mikil stærðfræði en ég held að ég hafi verið nær 260 vinnustundum þann mánuð, ég man ekki einu sinni hvaða mánuður það var, en 250 eða 260 stundir voru það. Þið sjáið að þetta er 120% starf eða hvað það nú kann að vera. Þetta er engin kvörtun, þetta er bara staðreynd. Ég er ánægður með starfið og mér dettur ekki í hug að kvarta undan þessu álagi. Starfið er sveiflukennt og okkur er stundum sagt að hér séu löng hlé. Það er jólahlé, páskahlé og svo er sumarhlé. Staðreyndin er þó sú að við erum yfirleitt töluvert að vinna í þessum hléum. Svo hafa menn mismunandi vinnustíl, sumum hentar skorpuvinna og öðrum ekki, og aðstæður manna eru misjafnar. Hér hefur komið hér fram að sumir eiga stórar fjölskyldur, aðrir minni, sumir eru einhleypir og einhverjir eru komnir á eftirlaun og guð veit hvað. Við erum jafn ólík að öllu þessu leyti og við erum mörg.

Þá að hinu raunverulega vinnuálagi sem við getum kallað svo. Nefndirnar eru margar, bæði stóru fagnefndirnar og aðrar minni, fyrir utan starfshópa sem eru settir upp, við þurfum að fara upp í þetta eða hitt ráðuneytið og vinna þar að stefnumáli eða jafnvel aðstoða við gerð lagafrumvarpa og annað slíkt. Ég er í fjórum nefndum, tveimur viðamiklum fastanefndum, einni alþjóðanefnd fyrir utan utanríkismálanefnd og síðan einni innlendri nefnd sem gerir að verkum að nefndarfundir hjá mér eru meira eða minna alla daga vikunnar. Svo koma fundirnir sem við erum beðin um að sækja. Það er ársfundur hér, ráðstefna þar, málfundur, fræðslufundir hjá Alþjóðastofnun Háskóla Íslands, Seðlabankanum eða Landvernd, þ.e. fræðsla úti í bæ eins og við getum sagt. Síðan er kjördæmið sjálft. Þar eru fundir, ráðstefnur og annað slíkt og svo þurfum við að heimsækja fólk, við þurfum að hitta bæjarstjóra í mínu tilviki af því að ég er utanbæjarþingmaður o.s.frv.

Þá er spurningin hversu mikið álag þetta er á þingmann í meðalstórum þingflokki. Í litlu þingflokkunum er þetta álag enn meira, í stórum þingflokkum aðeins minna, þannig að allt þetta þurfa menn að hafa í huga. Ofan á allt þetta þurfa menn sem eru samviskusamir þingmenn, og það erum við öll, að kynna sér gögn, lesa lagafrumvörp, greinargerðir, skýrslur, þingsályktunartillögur o.s.frv., við þurfum að búa okkur undir fyrirspurnir og semja ræður. Hvað skyldu málanúmerin vera mörg á meðalþingi? Þau eru yfir 1.000, þ.e. frumvörp, þingsályktunartillögur, skýrslubeiðnir, fyrirspurnir o.s.frv. Fjöldi þessara málanúmera segir okkur dálítið.

Þá komum við að því hvað hægt er að gera. Það snýst um skipulagningu þingstarfa sem snerta þingsköpin og ég ætla ekki að fara að fjölyrða hér um eða að leggja neitt til en auðvitað þarf að fara yfir þau og það er verið að því núna. Svo er vinnulagið hjá okkur sjálfum, bæði sem einstaklingum og í þingflokkum. Um það gæti ég sagt mjög margt en ætla ekki að lengja þessa ræðu sem því nemur.

Ég ætla að fara eftir því sem hv. þm. Brynjar Níelsson sagði og halda stutta ræðu og koma með helstu ástæðuna fyrir því að ég bað um orðið. Hún er einfaldlega þessi: Það verður að fjölga þingmönnum um a.m.k. tíu.

Af hverju segi ég það? Allir vita að ráðherrum er ekki lagið að sitja í þingsal og vera að vinna. Þeir eru annars staðar nema þegar þeir eiga hingað brýnt erindi. Allt þetta sem ég var að telja upp, nefndastörfin og allt, er á könnu rúmlega 50 þingmanna. Það er m.a. vegna þess hvernig nútímasamfélagið er að verða, það liggur við að það verði að vera til lög um sorpgeymslur og það verða að vera til lög um þetta og hitt. Þeim tilfellum fjölgar stöðugt. Við erum með EES-samninginn sem menn eru ánægðir með, þar á meðal ég, sem þýðir að við þurfum að taka við allmörgum gerðum sem þurfa að fara í gegnum þingsalinn. Allt er þetta nútíminn sem gerir það að verkum að þingmannatala sem var einu sinni ákveðin að væri í lagi, 63, er það ekki lengur. Ég ætla ekki að fara út í það með hvaða hætti þetta er gert en menn hafa verið með ákveðnar hugmyndir um það. Ég ætla ekki að fara inn á það en tel einfaldlega að kominn sé tími til að þetta sé gert. Kostnaður er vissulega til staðar, þingsalurinn hér er sennilega of lítill en það að horfast ekki í augu við þetta og reyna ekki að fjölga hausunum og höndunum sem vinna þingstörfin að fjarstöddum ráðherrum held ég að væri að stinga höfðinu í sandinn ef menn ræddu þetta ekki í alvöru.