Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[15:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta fyrir að fara með skýrum og einföldum hætti yfir eðli þingmennskunnar. Í umræðunni sér maður haldið fram allt öðrum hlutum og það hefur pirrað mig nokkuð lengi vegna þess að fjölmiðlarnir sem eiga að vera að upplýsa ýta jafnvel nánast undir falsfréttir — er það ekki nýjasta orðið? — um eðli þessa starfs. Því er reglulega haldið fram að hér séu menn hálft árið í fríi.

Sjálfur sit ég í þremur nefndum ef ég tel forsætisnefnd með sem gerir talsverða viðveruskyldu hér umfram aðra þingmenn. Svo er alþjóðanefnd og gjarnan eru einhverjar ferðir í þessum svokölluðum þinghléum í kringum nefndavinnuna. Ég held að það sé afar brýnt að almenningur viti betur í hverju starfið felst.

Ég hef ekki hugsað út í að fjölga þingmönnum en það er hins vegar athyglisvert af því að umræðan hefur verið frekar verið um að fækka þingmönnum en fjölga þeim og ég spyr: Sér hv. þingmaður einhvern möguleika á að það sé frekar einhvers konar aðstoð við hvern þingmann sem gæti gert þetta betur en að fjölga þeim? Ég hef ekki tilfinningu fyrir því að þolinmæði fyrir slíkri tillögu yrði mikil hjá almenningi.