150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

meðhöndlun lögreglu á fólki í geðrofi.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vona bara heitt og innilega að það verði eitthvað gert og við þurfum að gera eitthvað strax. Það þarf að auka menntun lögreglumanna á þessum sviðum og líka að sjá til þess að tekið sé á þeim einstaklingum sem lenda í svona aðstæðum á þann hátt að þeir eru veikir einstaklingar en ekki að fremja afbrot. Við eigum eftir að lenda í þessum aðstæðum og það virðist vera staðreynd að slíkum tilfellum sé að stórfjölga og við vitum af hverju það er. Ýmislegt í samfélaginu veldur því að það er að aukast að fólk fari í geðrof og hefur komið sérstaklega fram t.d. við fíkniefnaneyslu og annað. En þetta eru auðvitað mjög vandmeðfarin mál. Þetta eru bæði lögreglumál og heilbrigðismál og þarna þarf lögreglan og heilbrigðiskerfið að tala saman og sjá til þess að gera eitthvað í því núna. Það er of seint að gera eitthvað þegar einn enn lendir í því að verða fyrir skaða út af rangri handtöku.