150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

raforkuöryggi á Suðurnesjum.

[15:25]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þörfin fyrir Suðurnesjalínu 2 er brýn og minnkar alls ekki eftir því sem tíminn líður. Aðstæður eins og nú hafa skapast sýna enn frekar hversu mikilvægt er að klára þessa framkvæmd sem hefur tekið allt of langan tíma. Þegar spurt er hvað ráðherra ætli að gera til að flýta ferlinu þá höfum við komið því þannig fyrir að það er ansi lítið svigrúm fyrir ráðherra til að stíga inn í einstaka framkvæmdir. Við erum með regluverk sem ég hef oft sagt að mér finnist of flókið og of svifaseint; skortur á samlegð þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar. Ég átta mig á því að á línuleiðinni eru 20 jarðir, ef ég þekki rétt, og þetta hefur farið í gegnum ferlið á allt of löngum tíma. Ég bind vonir við að okkur takist að breyta regluverki þannig að dæmi eins og uppbygging á Suðurnesjalínu 2 heyri sögunni til en verði ekki áfram og næstu misseri dæmi um framkvæmdir sem hafa einfaldlega tekið allt of langan tíma. Þær upplýsingar sem koma frá Landsneti, um hvað myndi gerast ef Svartsengi færi út, ættu að sýna fólki að okkur verður einfaldlega að takast betur en þetta að koma upp framkvæmdum í þessu landi sem eru einfaldlega hluti af því að geta tryggt þjóðaröryggi.