150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

raforkuöryggi á Suðurnesjum.

[15:29]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að standa hér og koma með minn úrskurð um það hvort mér finnist að línan eigi að fara meðfram vegi og ofan í jörðu eða vera í loftlínu. Ég lít svo á að það séu þar til bærir aðilar sem vega og meta hvernig það er best gert. En ég átta mig á því að eitt af því sem þarf að breyta í þessu regluverki er að þegar við erum að fjalla um jarðlínur er það takmörkuð auðlind, ef svo má segja, það er ekki endalaust magn sem hægt er að leggja í jörðu. Þegar þarf að fara í gegnum mörg eignarlönd eða nokkur sveitarfélög þarf að horfa á það í einhverju samhengi við hvernig eigi að skipta þeirri auðlind ef allir vilja fá sinn hlut ofan í jörðu sem fer yfir þeirra land. Það er hluti af skilvirkni í málsmeðferð og samlegð þegar kemur að þessum framkvæmdum. En ég get ekki sagt til um það nákvæmlega hvort ég myndi vilja. Ég vil bara að þessari framkvæmd ljúki. (Forseti hringir.) Þetta hefur tekið allt, allt of langan tíma og það er eitthvað að í regluverki okkar þegar við erum með dæmi þess (Forseti hringir.) þrátt fyrir að skýringarnar séu mismunandi og framkvæmdirnar misjafnar sömuleiðis.