150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

bann við jarðsprengjum.

[15:39]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ákvörðun bandarískra stjórnvalda, um að fella úr gildi bann fyrri stjórnar gegn framleiðslu og birgðasöfnun og beitingu jarðsprengna utan Kóreuskaga, veldur áhyggjum. Forseti Bandaríkjanna gaf út tilskipun þann 31. janúar sl. þar sem felld er úr gildi stefnumörkun ríkisstjórnar Obama frá 2014, um bann við framleiðslu, birgðasöfnun og beitingu jarðsprengna utan Kóreuskaga. Bandarísk stjórnvöld segja bannið leggja hömlur á getu Bandaríkjanna ef til átaka kemur. Kveðið er á um það í tilskipuninni að jarðsprengjum verði aðeins beitt í undantekningartilfellum og að notaðar verði þróaðar jarðsprengjur sem eyða sér sjálfar eftir tiltekinn tíma.

Bandaríkin hafa ávallt tekið þátt í málefnavinnu varðandi jarðsprengjusamninginn og efnislega fylgt honum frá því að hann gekk í gildi 1997 en aldrei staðfest hann. Til að mynda hefur Bandaríkjaher ekki beitt jarðsprengju síðan 1991 og ekki framleitt slík vopn síðan 1997. Umtalsverðu magni vopnanna hefur jafnframt verið eytt. Í nóvember 2019 var þess minnst í Ósló að 20 ár eru síðan þessi merki samningur, um bann við notkun og birgðasöfnun og eyðingu jarðsprengna, tók gildi og jafnframt var þar samþykkt sýn um heim án jarðsprengna 2030, en samningurinn er hluti þess fjölþætta nets samninga um vígbúnaðartakmarkanir og afvopnun sem byggt hefur verið upp undanfarna hálfa öld.

Ísland tók þátt í ráðstefnunni og styður þau markmið sem þar voru samþykkt. Góður árangur hefur náðst í eyðingu jarðsprengna síðustu tvo áratugi og hefur Ísland lagt sitt af mörkum þar með þátttöku í sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar í Líbanon í samstarfi við Svíþjóð. Til að gera langa sögu stutta mun Ísland hvetja öll ríki til að vinna áfram að þeim markmiðum sem hér eru tilgreind.