150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

bann við jarðsprengjum.

[15:42]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki margt við þetta að bæta en mér finnst hins vegar af þessu tilefni ágætt að minnast þess að við höfum með beinum hætti lagt okkar af mörkum til að eyða jarðsprengjum síðustu tvo áratugi og er það gert með sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar. Það er eitt af því sem við leggjum af mörkum í alþjóðlegu samstarfi og maður finnur, t.d. á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, að það er mjög vel metið. En auðvitað er markmiðið fyrst og fremst það að við sjáum ekki stríðsátök hér. Ég held að það séu ekki til nein dæmi um góð stríðsátök, þau eru alltaf slæm. Við munum halda áfram að leggja okkar af mörkum til þess að koma í veg fyrir þau. Einn liður í því er svo sannarlega að takast á við hin ýmsu vopn og reyna að takmarka bæði framleiðslu og ég tala nú ekki um notkun þeirra eins og mögulegt er.